Hundruð aðdáenda auk fjölskyldu rapparans DMX komu saman í gærkvöldi fyrir utan sjúkrahúsið þar sem tónlistarmaðurinn liggur alvarlega veikur.
Greint var frá því að tónlistarmaðurinn, sem heitir réttu nafni Earl Simmons, hafi verið fluttur með hraði á sjúkrahús í úthverfi New York-borgar, White Plains, á föstudag eftir að hafa fengið hjartaáfall. Umboðsmaður DMX segir að hann sé enn í öndunarvél og staðan alvarleg.
Meðal þeirra sem tóku þátt í bænastundinni í gærkvöldi er unnusta DMX og fyrrverandi eiginkona hans einnig.
DMX, sem er fimmtugur að aldri, hefur glímt við fíkn árum saman. Árið 2019 aflýsti hann nokkrum tónleikum og fór í meðferð.
Meðal þekktra laga hans eru X Gon' Give It To Ya og Party Up.