Helgi Snær Sigurðsson
My Octopus Teacher, eða Kolkrabbakennarinn minn, er ein þeirra heimildarmynda sem tilnefndar eru til Óskarsverðlauna í ár. Í henni segir af Craig nokkrum Foster, heimildarmyndasmiði og náttúruverndarsinna, sem fer að kafa undan ströndum Suður-Afríku, skammt frá Höfðaborg, eftir að hafa lent í kulnun. Í köfunarleiðöngrum sínum tekur Foster eftir litlum kolkrabba sem hegðar sér forvitnilega, býr sér til felubúninga úr skeljum og líkir eftir hreyfingum plantna á sjávarbotninum. Foster fer að fylgjast daglega með kolkrabbanum og honum til mikillar furðu nálgast kolkrabbinn hann og snertir, tengist honum vinaböndum.
Myndin er til umfjöllunar í nýjasta þætti kvikmyndahlaðvarpsins Bíó sem finna má hér fyrir neðan. Í honum ræðir Helgi Snær Sigurðsson, blaðamaður og kvikmyndarýnir á Morgunblaðinu, við sjávarlíffræðinginn Eddu Elísabetu Magnúsdóttur um myndina og hinn magnaða kolkrabba. Voru þau sammála um að hér væri heillandi heimildarmynd á ferð sem ætti að höfða til allra aldurshópa.