Lést tveimur dögum síðar

Jimi Hendrix á tónleikum í Stokkhólmi árið 1967.
Jimi Hendrix á tónleikum í Stokkhólmi árið 1967. AFP

Rétt fyrir andlát sitt gat Jimi Hendrix vel hugsað sér að heimsækja Ísland enda hafði honum borist til eyrna að íslensku stelpurnar væru dæmalaust sætar og skemmtilegar. Það stóð alltént í Vísi.

Vísir birti frétt þess efnis miðvikudaginn 16. september 1970 að rokkgoðið Jimi Hendrix hefði áhuga á að heimsækja Ísland. Heimildarmaðurinn var Albert, plötusnúður á því ágæta danshúsi Las Vegas. Föðurnafn hans kemur ekki fram en hér mun vera um að ræða Albert Rúnar Aðalsteinsson sem einnig var þekktur sem rótari og tónlistarmaður á þessum tíma, meðal annars undir nafninu Albert Icefield. Hann er nú látinn.

„En Jimi viðurkenndi það fyrir Íslendingi nokkrum, sem náði tali af honum í London í fyrravetur, að áhugi sinn á Íslandsförinni hefði vaknað er brezkur hljómlistarmaður, sem hafði komið til Íslands hafði sagt honum frá því, hve íslenzku stelpurnar væru dæmalaust sætar og skemmtilegar,“ hafði blaðið eftir Alberti plötusnúði.

Ekki með öllu útilokað

Kvaðst Albert hafa sett sig samstundis í samband við umboðsmann Jimi Hendrix á Norðurlöndum, er hann frétti af áhuga kappans á að koma hingað til lands. „Hefur Albert síðan átt nokkur bréfaskipti við þann umboðsmann og fengið þær upplýsingar í gegnum hann, að ekki væri með öllu útilokað, að Jimi fengist til Íslands, þar eð hann er mikill ferðamaður og sækist mikið eftir því að koma til nýrra staða og kynnast nýju fólki og staðháttum,“ stóð í fréttinni sem ÞJM skrifaði undir en hún birtist undir merkjum þáttarins „POP-punktar“.

 Ekki nóg með það. Enn fremur kom fram að væri áhugi Hendrix á að heimsækja einhvern vissan stað mikill, ætti hann það til að slá verulega af kaupkröfum sínum, en þá með því skilyrði að þeir staðir, sem hann kæmi fram á væru litlir og notalegir og sæktist hann aðallega eftir að spila í litlum klúbbum og dansstöðum, en hefði oftsinnis lýst „prumpi og frati“ á tilboð um að koma fram á hljómleikum í stórum hljómleikasölum og útisvæðum, þar sem hann segir vera nær ógjörning að ná sambandi við áheyrendur.

Albert kunni ráð við þessu: „Okkur hefur einna helzt komið til hugar að láta hann koma fram fjögur eða fimm kvöld hér í Las Vegas, en einnig hefur það komið til tals að leigja stærra danshús undir gaukinn.  Hvort sem yrði verður ekki hægt að hafa aðgangseyrinn lægri en í kringum 1000 krónur til að allir endar nái saman,“ sagði plötusnúðurinn.

Hann sló að vísu þann varnagla að kannski væri of snemmt að fara út í útfærsluatriði strax. „Það er víst bezt að bíða með slíkt að minnsta kosti þangað til það er komið á hreint með það, hvort Jimi Hendrix kemur og það verður í fyrsta lagi ekki fyrr en í næsta mánuði.“

Goðsögnin lifir, hálfri öld eftir andlátið. Hér má sjá „múrverk“ …
Goðsögnin lifir, hálfri öld eftir andlátið. Hér má sjá „múrverk“ af Jimi Hendrix í góðum félagsskap á vegg í New York. Myndin var tekin í byrjun þessarar viku. AFP


Á forsíðum íslenskra blaða

Hafi þessi áform einhvern tíma verið áþreifanleg runnu þau alltént út í sandinn tveimur dögum síðar – þegar Jimi Hendrix lést í Lundúnum, aðeins 27 ára að aldri.

Morgunblaðið færði þjóðinni þá sorglegu frétt á forsíðu daginn eftir, 19. september 1970, sem hlýtur að hafa sætt tíðindum á þeim tíma þegar rokkari átti í hlut og er augljós vitnisburður um vinsældir og frægð mannsins. „Bandaríski gítarleikarinn og poppstjarnan Jimi Hendrix lézt í London í gær, 24 ára gamall [sic]. Dagblöðin sögðu hann hafa látizt vegna ofneyzlu eiturlyfja, en talsmaður sjúkrahússins, sem Hendrix var fluttur á, sagði: „Við vitum ekki hvar, hvernig eða hvers vegna hann lézt.“ Líkið verður krufið, til að hægt verði að ákvarða dánarorsök.“

Síðan var nánari grein gerð fyrir hinum látna. „Jimi Hendrix var í hópi beztu gítarleikara heims. Hann kom fyrst til Bretlands árið 1967 og vakti þá strax mikla athygli fyrir eggjandi sviðsframkomu og æsandi gítarleik. Hann átti það til að leika á gítarinn með tönnunum og kveikja í honum á eftir, en þó lék enginn vafi á því, að hann var gítarsnillingur. Hann var kosinn bezti tónlistarmaður heims af lesendum brezka músíkblaðsins Melody Maker í kosningum þess árið 1967.“

Nánar er fjallað um Jimi Hendrix í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu ekki meiri kröfur til sjálfs þín en þú ert fær um að standast. Reyndu að semja við alla sem þú hittir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Kathryn Hughes
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Carla Kovach
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu ekki meiri kröfur til sjálfs þín en þú ert fær um að standast. Reyndu að semja við alla sem þú hittir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Kathryn Hughes
3
Steindór Ívarsson
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Carla Kovach