Búið er að mála rauðan „dregil“ á Garðarsbraut á Húsavík. Dregillinn er í anda óskarsverðlaunahátíðarinnar sem fer fram 25. apríl næstkomandi en lagið Húsavík – My Home Town úr kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga er tilnefnt til verðlaunanna í ár.
Húsvíkingar hafa tekið virkan þátt í því að reyna að fá Óskarinn heim til Húsavíkur og hrundu af stað verkefni til þess að hvetja meðlimi Akademíunnar til að kjósa lagið Húsavík.
Húsavíkurstofa sótti nýverið um leyfi til byggðaráðs Norðurþings um að setja upp rauðan dregil í miðbænum í tengslum við verðlaunahendinguna. Enn fremur var óskað eftir styrk í formi aðkomu starfsmanna þjónustumiðstöðvar sveitarfélagsins að verkefninu.
Og nú er gatan milli veitingastaðarins Sölku og Kaupfélagshússins, sem nú hýsir Krambúðina, orðin rauð. Í frétt Vikublaðsins kemur einnig fram að á mánudag muni Húsavíkurstofa hengja upp viðhafnarborða yfir götuna.
Á fundi byggðaráðs í vikunni var einnig lögð fram sú bókun að fyrirtæki og stofnanir myndu gefa ákveðinn slaka mánudagsmorguninn 26. apríl svo bæjarbúar geti vakað fram eftir og fylgst með verðlaunahátíðinni. Bókunin var samþykkt.
„Aðfaranótt mánudagsins 26. apríl næstkomandi kemur Óskarinn hugsanlega heim til Húsavíkur. Því má gera ráð fyrir að margir bæjarbúar verji spenntir þeirri nótt við áhorf. Það er lag að fyrirtæki og stofnanir veiti því ákveðinn slaka að morgni þessa dags þannig að bærinn vakni aðeins seinna inn í tilveruna þennan daginn.
Benóný, Hafrún, Helena, Kristján og Kolbrún Ada taka undir bókunina.“