„Ótrúlegt“ að óskarsatriðið verði tekið upp á Húsavík

Myndbandið verður tekið upp á smábátahöfninni á Húsavík.
Myndbandið verður tekið upp á smábátahöfninni á Húsavík. Ljósmynd/Rafnar Orri Gunnarsson

Flutningur Molly Sandén á laginu Húsavík – My Home Town, sem tilnefnt er til Óskarsverðlauna, verður tekinn upp á smábátahöfninni á Húsavík í dag. Upptakan verður sýnd á verðlaunahátíðinni aðfaranótt 26. apríl, en venjan er að þau lög sem tilnefnd eru til verðlaunanna séu flutt á hátíðinni. 

Vegna hertra reglna vegna kórónuveirufaraldursins komst Sandén ekki til Bandaríkjanna og því var brugðið á það ráð að taka flutninginn upp á Húsavík. 

Kvikmyndafyrirtækið True North framleiðir myndbandið í samstarfi við Netflix og Örlyg Hnefil Örlygsson, sem hefur gert kynningarmyndbönd fyrir lagið.

Búnir að veðja mikið á Óskarinn

Örlygur segir í samtali við mbl.is að Savan Kotecha, einn höfunda lagsins, hafi haft samband við hann þegar það lá fyrir að Sandén gæti ekki ferðast til Bandaríkjanna. 

„Þetta kom til af því að Molly gat ekki farið til Bandaríkjanna. Húsvíkingar eru búnir að veðja mikið á Óskarinn síðustu vikur og við vildum alls ekki að þetta myndi klikka. Lagahöfundurinn talaði við mig og spurði hvort það væri hreinlega hægt að gera þetta á Húsavík, hann langaði til að gera þetta hérna,“ segir Örlygur. 

„Við fórum bara á fullt, heimafólk, True North og Netflix að taka saman höndum. Þetta hlýtur að vera ein af stærstu einstöku kynningum sem Ísland hefur fengið, það eru náttúrulega 65 milljónir sem horfa á Óskarinn í beinni. Að þetta sé að fara að gerast á smábátabryggjunni á Húsavík er alveg ótrúlegt,“ segir Örlygur. 

Örlygur Hnefill Örlygsson.
Örlygur Hnefill Örlygsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Unnið í samstarfi við landlækni

Sandén kom til landsins með einkaþotu á föstudag og verður myndbandið tekið upp í dag. Örlygur segir að veðrið lofi góðu. Mun Sandén njóta aðstoðar stúlknakórs Húsavíkur við flutninginn, en 17 stúlkur á aldrinum 10-11 ára hafa verið valdar til að taka þátt í atriðinu.  

„Það var sennilega eitt það skemmtilegasta við þetta verkefni, að fara upp í skóla og biðja stúlknakór um að syngja á óskarnum. Kórstjórinn er alveg búinn að svífa um á bleiku skýi síðustu daga. Þetta er sennilega eitt það skemmtilegasta sem hefur komið fyrir í svona litlum bæ hjá okkur, það er bros á hverju einasta andliti í Húsavík í dag,“ segir Örlygur. 

Hann segir að mikið sé lagt upp úr sóttvörnum og Sandén hafi farið í regluleg Covid-próf síðustu daga. 

„Hún er búin að fara í regluleg próf og einangra sig síðustu daga og svo var hún flutt með einkaþotu svo hún sé ekki í sambandi við neinn. Þetta hefur verið unnið í nánu samstarfi með landlæknisembættinu. Stelpurnar lögðu það svo á sig að fara í sitt fyrsta próf hérna til að geta gert þetta og sungið með henni. Við leggjum það hiklaust á okkur fyrir það sem við erum að uppskera,“ segir Örlygur. 

Óskarsverðlaunahátíðin fer sem áður segir fram aðfaranótt mánudagsins 26. apríl. Örlygur segir að gríðarleg spenna sé fyrir hátíðinni í sveitarfélaginu. 

„Það eru hundrað hlutir að gerast. Bakarinn er að baka hér óskarskökur, það er búið að mála rauðan dregil á aðalgötuna. Það má segja að það sé sannkallað óskarsæði á Húsavík. Þetta ár er búið að vera áskorun eins og hjá öllum og ef maður fær svona tækifæri er glórulaust að nota það ekki í botn.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Veltu fyrir þér ferðalögum eða búferlaflutningum til fjarlægra staða. Njóttu þessarar góðu tilfinningar en bíddu þó aðeins með að taka mikilvægar ákvarðanir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Karin Härjegård
5
Solja Krapu-Kallio
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Veltu fyrir þér ferðalögum eða búferlaflutningum til fjarlægra staða. Njóttu þessarar góðu tilfinningar en bíddu þó aðeins með að taka mikilvægar ákvarðanir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Karin Härjegård
5
Solja Krapu-Kallio