Sautján húsvískar stelpur á aldrinum tíu til ellefu ára munu í dag syngja lagið Húsavík – My Home Town með sænsku söngkonunni Molly Sandén á smábátabryggjunni á Húsavík. Flutningurinn verður sýndur á Óskarsverðlaununum aðfaranótt 26. apríl, en lagið er einmitt tilnefnt til verðlauna.
Ásta Magnúsdóttir, kórstjóri stelpnanna, segir að dagurinn hafi gengið frábærlega.
„Þetta hefur gengið bara glimrandi vel. Það er eins og stelpurnar hafi aldrei gert neitt annað en að undirbúa sig fyrir Óskarsverðlaunin,“ segir Ásta.
Ákveðið var með skyndi að flutningurinn skyldi tekinn upp hér á landi þegar ljóst varð að Sandén kæmist ekki til Bandaríkjanna vegna kórónuveirufaraldursins.
„Þetta gerðist bara yfir nótt. Ég fékk leyfi frá foreldrum á fimmtudag til þess að tala við stelpurnar og svo hafði ég hálftíma eftir hádegi til að kenna þeim. Svo voru bara tökur í gær, allar hljóðupptökur,“ segir Ásta.
Hún bætir þó við að stelpurnar hafi nú þegar kunnað lagið vel.
„Þetta er svo stórt hérna og margar hverjar voru að leika í myndinni í fyrra. Þetta er bara ótrúlegt, svo ótrúlega gaman.“
Mikil leynd hvílir yfir því hvernig myndbandið verður að sögn Ástu, en auk heimamanna koma Netflix og True North að framleiðslunni.
„Ég held að þær eigi eftir að fá áfall þegar þær sjá myndbandið. Þær vita ekkert núna hvað er í gangi, þær vilja bara hitta Molly,“ segir Ásta.
Þá eru strangar reglur í gildi vegna kórónuveirunnar og þurfa allir sem koma á smábátabryggjuna í dag að fara í sýnatöku, meðal annars stelpurnar 17 sem fóru allar í sitt fyrsta Covid-próf í gær.