Fatahönnuðurinn Mossimo Giannulli er laus úr stofufangelsi og er því frjáls ferða sinna. Þau hjónin, Giannulli og Lori Loughlin, hafa því bæði afplánað fangelsisdóma sína. Á föstudaginn lauk Giannulli við afplánun sína en Loughlin losnaði í lok desember.
„Mossimo er auðvitað feginn að losna úr stofufangelsinu. Þau eru bæði ótrúlega fegin að vera búin að afplána dóma sína. Mossimo á eftir að inna af hendi samfélagsvinnu, en hann getur haldið áfram með lífið,“ sagði heimildamaður People um málið.
„Lori er frábær eiginkona, móðir og vinur. Þau Mossimo hafa gert stór mistök. Þau hafa tekið ábyrgð á þeim og vilja ferska byrjun núna,“ sagði heimildamaðurinn.
Giannulli og Loughlin voru á síðasta ári dæmd í fangelsi, hún tveggja mánaða fangelsi og hann fimm mánaða, fyrir þátt sinn í háskólasvindlsmálinu svokallaða.