Tónlistarmaðurinn Árni Páll Árnason, betur þekktur sem Herra Hnetusmjör, blæs til mótmæla við Keflavíkurflugvöll á sunnudaginn kemur. Árni og fleiri mótmæla sóttvarnaaðgerðum á landamærum og vilja sjá hertar reglur um komu ferðamanna til landsins.
„Við stefnum á að loka veginum frá hringtorginu af Keflavíkurflugvelli á sunnudaginn. Það er af því að við erum komin með nóg. Dropinn sem fyllti mælinn eru öll þessi börn á leikskólaaldri sem eru smituð af því einhver fáviti vildi ekki fara í sóttkví,“ segir Árni í samtali við mbl.is
Á rúmum tveimur klukkustundum hafa yfir 1.300 sagst áhugasamir um mótmælin á viðburði á Facebook og tæplega 400 sagst ætla að mæta.
„Ég var lengi að hugsa útfærsluna á mótmælunum. Að ég standi á Austurvelli með skilti er ekki að fara skila neinum árangri. En ég vil heldur ekki leyfa veirunni að komast lengra með því að búa til einhvern hóp. Þannig að snyrtilegast fannst mér að gera þetta á bílum,“ segir Árni.
Mótmælin fara því fram á bílum. „Vert er að taka fram að við munum einungis leggja bílum frá flugvellinum að hringtorginu svo við hömlum ekki nauðsynlega þjónustu fyrir íbúa á Suðurnesjum. Ég hvet alla sem hafa fengið sig fullsadda til að mæta og jafnframt halda sig inni í bílunum til að gæta að sóttvörnum,“ segir á viðburðinum á Facebook.
„Maður er orðinn svo langþreyttur á þessu. Það er ný frétt á hverjum degi um smit og svo er það rakið til landamæranna. Það er alltaf hert innanlands og ekkert gert á landamærunum,“ segir Árni.
Árni sér fyrir sér að öllum verði gert að fara í tveggja vikna sóttkví á sóttkvíarhóteli líkt og er gert á Nýja Sjálandi og í Ástralíu. Einnig vill hann hækka sektir við sóttkvíarbrotum.
Árni er tónlistarmaður og hefur stóran hluta tekna sinna af tónleikahaldi. „Ég gerði það sama og flestir sem misstu vinnuna. Ég fór bara að gera annað, ég gat ekki haldið tónleika svo ég fór að leika mér í auglýsingum. Maður aðlagar sig að aðstæðum. Ég skal alveg taka á mig tekjutap og ég skal alveg taka á mig að geta ekki stundað líkamsrækt og geta ekki hitt fjölskyldu og vini svo framalega sem það er eitthvað gert,“ segir Árni.
„Þetta er sagan endalausa. Við vitum hver skaðvaldurinn er, það eru landamærin. Það hefur sýnt sig aftur og aftur,“ segir Árni að lokum.