Streymisveitan Netflix tilkynnti á dögunum að hægst hefði á nýskráningum á streymisveituna undanfarna mánuði. Hlutabréf í fyrirtækinu lækkuðu um 11% næstu klukkutímana eftir tilkynninguna.
Heimsfaraldurinn hefur verið tvíeggjað sverð í höndum Netflix. Hann hefur gert það að verkum að fólk hangir meira heima að horfa á sjónvarpið og fleiri hafa keypt þjónustu þeirra. Að sama skapi hefur faraldurinn valdið truflunum á tökum á þáttum og kvikmyndum og seinkað framleiðslu þeirra.
Á síðasta árið nýskráðu 15,8 milljónir sig á streymisveituna.
Um 3,98 milljónir hafa nýskráð sig á streymisveituna það sem af er þessu ári en spár gerðu ráð fyrir sex milljónum. Netflix telur ástæðuna vera að minna af nýjum þáttum og kvikmyndum hefur verið að koma inn á veituna.
Samkeppnin hefur harðnað mikið á markaði streymisveitna. Fleiri streymisveitur hafa bæst við undanfarin ár, til dæmis HBO Max og Disney+. Yfir 200 milljónir eru með áskrift að Netflix en 100 milljónir með áskrift að Disney+.