Rapparinn Árni Páll Árnason, sem betur er þekktur sem Herra Hnetusmjör, hefur aflýst mótmælum sem hann ætlaði að halda vegna aðgerða, eða aðgerðaleysis, við landamærin. Hann telur mótmæli ekki nauðsynleg „að svo stöddu“.
Mótmælin áttu að fara fram næstkomandi sunnudag en stór hópur fólks, rúmlega 1.000 manns, hafði boðað komu sína. Hópurinn ætlaði að kalla eftir hertum reglum um komu ferðamanna til landsins með því að loka veginum frá hringtorginu að Keflavíkurflugvelli.
Á samfélagsmiðlinum Instagram í dag segir Árni að ástæðan fyrir því að hann ætli ekki að mótmæla í bili sé lagafrumvarp sem samþykkt var á Alþingi snemma í morgun og heimilar ráðherra að skylda fólk frá miklum áhættusvæðum til dvalar á sóttkvíarhóteli.