Útvarpsmaðurinn Þórður Helgi Þórðarson, sem hóf fyrir margt löngu að kalla sig Dodda litla, gaf út sína fyrstu og síðustu breiðskífu 16. apríl og nefnist sú Last. Doddi hefur áður spreytt sig sem tónlistarmaður og þá kallað sig Love Guru, gefið út mjaðmadillandi og oftar en ekki óþolandi lög.
Á Last má finna 12 lög sem Doddi segir að flokka megi sem hljóðgervlapopp í anda níunda áratugarins með aðeins ferskari kryddblöndum, eins og hann orðar það sjálfur. Plötuna segist hann hafa unnið að miklu leyti með 24 ára upptökustjóra frá Marokkó, N3dek (borið fram „Nedek“) sem var níu ára þegar Doddi samdi elsta lagið á plötunni. Doddi segir N3dek þennan harðan EDM-tónlistarmann (skammstöfun fyrir Electronic Dance Music eða rafmagnaða danstónlist) og hafa endurhljóðblandað eitt lag með Love Guru.
Nokkrir gestir koma við sögu á Last, þau Una Stef, Karitas Harpa, Lísa Einarsdóttir, Aldís, Rachel Wish, Íris Ey, Inger, Weekendson og breski rapparinn Gimson. Allar söngupptökur fóru fram hjá Jóni Þór Helgasyni í Weekendson studios.
Doddi segir að hugmyndin að plötunni hafi fæðst þegar hann gerði síðustu plötu Love Guru, Dansaðu fíflið þitt, dansaðu, þar sem hann fékk takt frá Bigga Veiru úr GusGus svo úr varð lagið „Wastelands“, yfir átta mínútna ópus þar sem Una Stef syngur viðlagið og útvarpsmaðurinn Eiríkur Guðmundsson les upp ljóð. Þótti Dodda þetta svo gott að hann gerði lagið aftur og gaf út sem „Last Dance (Wastelands)“. Níu lög á plötunni eru eftir Dodda, eitt eftir eðalsveitina Depeche Mode, eitt eftir hljómsveitina CTV og enn eitt eftir Gunnar Hilmarsson.
Doddi er spurður hvers vegna hann hafi ákveðið að þetta yrði bæði fyrsta og síðasta plata Dodda. „Ég er bara að uppfylla einhvern æskudraum, þetta er bara x í boxið. Ég sé alveg að ég kem ekki til með að ná miklum frama sem tónlistarmaður,“ segir Doddi. Metnaðurinn sé vissulega til staðar en heimsbyggðin sé hins vegar ekki að átta sig á snilldinni.
Tónlistarmennirnir Love Guru og Doddi eru mjög ólíkir náungar og segir Þórður Helgi að Doddi endurspegli þá tónlist sem hann hafi gaman af en Love Guru það sem hann hafi ekki gaman af.
„Love Guru er búinn að vera, frá því hann fæddist, svona anti-ego ég. Ég var að vinna á FM957 þegar hann varð til og ég fékk örugglega taugaáfall af því að þurfa að hlusta á tónlistina þar daginn út og inn og fór bara að framleiða það sem mér fannst vera drasl. Þetta var til að byrja með einn útvarps-sketch í Ding Dong hjá okkur Pétri (Jóhanni Sigfússyni) og svo sló lagið í gegn og fólk vildi meira. Þá hélt ég bara áfram að gera það sem mér fannst ógeðslega leiðinlegt, gerði heila plötu með leiðinlegri tónlist,“ útskýrir Doddi. „Ég held ég hafi náð sjö lögum inn á topp 20 á íslenska listanum af einni plötu sem mér fannst í heild ógeðslega leiðinleg,“ segir Doddi sposkur.
– Líklega hafa þá margir ekki fattað brandarann?
„Það voru rosalega margir sem föttuðu ekki brandarann,“ segir Doddi og hlær. Hann hafi hent gaman að ýmsum tónlistarstílum, til dæmis teknói og R&B en á seinni árum gert öllu skárri lög þannig að hann þyrfti ekki að skammast sín fyrir þau. Á sama tíma döluðu vinsældir Love Guru til muna.
Við snúum okkur að því sem Doddi kann að meta, ólíkt Love Guru. „Tónlistin sem kom upp úr 1980: nýbylgjan, nýrómantíkin, syntapoppið og allt þetta dót er það sem ég fíla og út frá því kemur house og teknó sem ég fíla líka. En það er náttúrlega til skrítið Scooter-teknó sem mér finnst fyndið en ekki skemmtilegt. Mér finnst mörg sánd hjá Scooter frábær en tónlistin vond,“ útskýrir Doddi.
Á Last má því finna nokkuð einlægan Dodda þótt alltaf sé stutt í grínið. „Þetta er eins mikið ég og hægt er,“ segir Doddi um plötuna, „það er smá house og deep house inni í þessu líka en grunnurinn er svolítið early 80's syntapopp með 2021-kryddi.“
Doddi fæddist 1969 og var tíu ára þegar þessi tónlist var að bresta á og drakk hana í sig. Hann segist talsmaður tónlistar frá níunda áratugnum hér á landi þótt hann þoli ekki um 50% af henni. „En það sem ég fíla finnst mér bara best í heimi.“
Talið berst að N3dek, marokkóskum upptökustjóra Dodda sem hann segist hafa fundið á leiguliðasíðunni Fiverr. Á henni má finna fólk í alls konar verkefni og þá m.a. tónlistarfólk og upptökustjóra. N3dek og Doddi hafa aldrei hist, þrátt fyrir að hafa klárað heila plötu saman, og segir hann samstarfið hafa gengið prýðilega þrátt fyrir nær endalausar sendingar á tónlist og skilaboðum milli landa. „Þetta var orðið pínu vesen þegar við vorum komnir í smáatriðin,“ segir Doddi kíminn.
Hinn útlendingurinn sem tók þátt í plötugerðinni er breskur rappari, Gimson, sem Doddi segist hafa fylgst með á Instagram. Gimson þessi setur daglega inn eitthvert tónlistarefni og segist Doddi hafa sett sig í samband við hann og beðið hann að semja texta fyrir sig og rappa í lagi á plötunni. Gimson lét vaða og samdi fínan texta inn í dramatíska og persónulega upplifun Dodda af æskunni, eins og hann orðar það sjálfur. „Hann bara steinnegldi það,“ segir Doddi.
Blaðamaður spyr hvort kalla megi þetta alþjóðlega plötu og kveður Doddi svo vera. Víðar sé komið við en á Íslandi, í Marokkó og Bretlandi.
„N3dek vissulega pródúseraði mikið af plötunni en alls ekki alla. Hún er mikið til mixuð og masteruð í Makedóníu hjá vini mínum Wise, við höfum verið í brandarakeppni síðustu fimm mánuði og ég er að rústa honum. Í „Game of Love“ eftir Gunna Hilmars er það 20 ára stelpa frá Jamaíku sem spilar á bassann, trommurnar eru frá Ítalíu og strengirnir frá Ricardo, félaga mínum í Pennsylvaníu í BNA. Góður félagi minn, Claudio Pirini frá Ítalíu, spilar á bandalausan bassa í tveimur lögum, við höfum verið að skiptast á myndum síðustu mánuði af kisunum okkar. Það er annar Ítali, Lau, sem vann með mér Depeche Mode-lagið, þýsk söngkona syngur með mér „Desire“, allar kvennaraddirnar, og uppáhaldið mitt er armenski landflótta Íraninn sem átti ekkert vegabréf og CIA var að elta. Okkar samstarf endaði þegar hann eyddi öllum samfélagsmiðlunum sínum, hann hafði að vísu gert það tvisvar áður en ég fann hann aldrei aftur. Geggjaður gaur og örugglega á lyfjum sem fást ekki í þessu landi, vildi gefa út áður en lagið var fullsamið og hvað þá unnið en greinilega með einhverja hæfileika,“ segir Doddi og bætir við að fólk frá fleiri þjóðlöndum hafi komið við sögu.
Hvað textasmíðina snertir segir Doddi að það hafi verið mikil áskorun fyrir sig að semja venjulega texta. „Ég er búinn að semja djammtexta fyrir Love Guru í 17 ár sem eru allir um það sama, að fara út og dansa, án þess að minnast á áfengi, eiturlyf og kynlíf. Ég er búinn að vera að semja sama textann í 17 ár þannig að þetta var áskorun,“ segir hann. Á plötunni sé einn mjög persónulegur texti og annar mjög listrænn sem hann skilji varla sjálfur. „Það eru tvö lög þarna með pínu Love Guru-texta sem eru bara grín en ég hef aldrei samið alvörutexta áður,“ útskýrir hann.
– Þetta er þá einlægni og húmor í bland?
„Þetta er hrein einlægni fyrir utan tvö lög, „Electro Love“ og „Desire“, sem eru bara grínlög. Ef þú sérð myndböndin við þau þá skilurðu það,“ svarar Doddi. „Þetta er ég, ekki ég að leika eitthvert anti-ego.“
Hér má sjá myndband við lagið „Electro Love“.