Í dag kemur út tónlist Barða Jóhannssonar við kvikmyndina Agony eftir Michele Civeta með Asiu Argento í aðhlutverki. Veikindi, geðveiki og dauði eru sterk þemu í myndinni og tónlistin undirstrikar þennan þunga.
Barði hefur samið tónlist við fjölmargar kvikmyndir en í tónlistinni við Agony læðist hann um stræti tryllings og hryllings (thriller/horror). Þessi tegund tónlistar er Barða ekki ókunnug en hann hafði áður samið tónlist við myndina Would You Rather sem heggur í sama knérunn.
Tónlistin er nú aðgengileg á streymisveitum en Barði segist mikill áhugamaður um kvikmyndir af þessu tagi og að þetta sé heimur sem sé honum eðlislægur.
„Ég er með norræna melankólíu í blóðinu, þaðan kem ég. Tónlistin er melankólísk, róleg og flæðandi en undir liggur órói. Hún lýsir vel stemningunni í kvikmyndinni. Ég hef verið mikill áhugamaður um þessa tegund mynda, sérstaklega þegar er vísað í kvikmyndagerð í Evrópu á sjöunda, áttunda og níunda áratugnum. Einn af mínum uppáhaldshöfundum Dario Argento sem er einmitt faðir aðalleikonunnar,“ útskýrir Barði en Argento gerði kvikmyndir á borð við Suspiria, Phenomena og Deep Red. Barði er þekktastur fyrir störf sín í Bang Gang en hefur samið og lagt til tónlist í yfir 30 kvikmyndir, leikhús og sjónvarp.