Ungstirnin Timothée Chalamet og Lily-Rose Depp eru sögð byrjuð saman aftur. Parið hætti saman fyrir ári eftir eitt og hálft ár saman. Chalamat og Depp sáust saman í New York um síðustu helgi.
Skötuhjúin sáust í skartgripa- og fatabúðinni Verameat að því fram kemur á vef ET. „Þau fóru inn saman og skoðuðu sig um. Timothée hefur komið inn í búðina nokkrum sinnum, bæði með Lily og einn,“ sagði sjónarvottur.
„Á meðan Lily skoðaði sig eitthvað um keypti hann leynigjöf fyrir hana og hljóp út,“ sagði sjónarvotturinn og bætti við að leikarinn hefði einnig keypt jakka fyrir sig og hálsmen.
Chalamet, sem er 25 ára, hefur verið tilnefndur til fjölda verðlauna, þar á meðal Óskarsverðlauna. Hin 21 árs gamla Lily-Rose Depp er hins vegar þekktari fyrir foreldra sína, en hún er dóttir Johnnys Depps og fyrrverandi eiginkonu hans, Vanessu Paradis.