Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York og lögmaður Donalds Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta, hlaut tvenn verðlaun á kvikmyndahátíðinni Gullna hindberið (e. Golden raspberry). Verðlaunin eru veitt fyrir verstu frammistöðuna á liðnu ári í kvikmyndageiranum og eru þannig andstaða við Óskarsverðlaunin sem veitt verða á sunnudaginn.
Giuliani fékk verðlaun bæði fyrir versta aukahlutverkið og versta samleikinn í kvikmynd Sacha Baron Cohen, Borat subsequent moviefilm. Ekki var um að ræða hlutverk sem Giuliani hafði tekið að sér, heldur er myndin svokölluð gerviheimildarmynd (e. mockumentary) þar sem Cohen og aðrir leikarar og aðstandendur myndarinnar bregða á leik í raunverulegum aðstæðum.
Í myndinni sést Giuliani fara með höndina ofan í buxurnar sínar á meðan hann liggur á hótelrúmi. Í atriðinu er einnig leikkona sem fer með hlutverk dóttur Borats, sem þykist vera sjónvarpsfréttamaður. Eftir að leikkonan hefur tekið viðtal við Giuliani fyrir skáldaðan íhaldssaman fréttaskýringaþátt, fara þau inn í svefnherbergi innan um faldar myndavélar til að fá sér drykk, eftir að hún hafði stungið upp á því.
Eftir að hún fjarlægir hljóðnemann hans sést þegar Giuliani, sem er 76 ára, liggur á rúminu, snertir skyrtuna sína og fer með höndina ofan í buxurnar sínar. Eftir það kemur Borat inn í herbergið og hrópar: „Hún er 15 ára. Hún er of gömul fyrir þig.“
Guiliani fékk síðari verðlaunin einmitt fyrir samleik með buxnarennilásnum.
Aðrar myndir sem voru sigurvegarar á hátíðinni í ár voru Music með þrenn verðlaun, meðal annars fyrir verstu tónlist og versta kvenhlutverkið og kvenaukahlutverkið. Þá fékk heimildarmyndin Absolute Proof sem framleidd var af Mike Lindell tvenn verðlaun. Um er að ræða mynd sem full er af fölskum ásökunum sem tengjast forsetakosningunum í Bandaríkjunum í fyrra, en Lindell keypti þriggja klukkustunda sýningartíma á OANN-stöðinni í Bandaríkjunum til að sýna myndina. Stöðin setti þó mikla fyrirvara fyrir birtinguna, meðal annars að aðeins væri um skoðanir Lindell að ræða.