Veðmálasíðan Bet365 spáir því að lagið Speak Now úr kvikmyndinni One Night in Miami muni sigra í flokki laga úr kvikmynd á Óskarsverðlaunahátíðinni í kvöld. Lagið er með stuðulinn 1,72 en lagið Húsavík – My Home Town úr kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga er með næstlægsta stuðulinn, 3,4.
Kyle Buchanan, sérfræðingur bandaríska blaðsins New York Times, spáir Speak Now sömuleiðis sigri í spá sinni. Buchanan minnist þó á lagið Húsavík og segir að það hafi marga góða kosti, sérstaklega þar sem það er flutt í kvikmyndinni. Honum þykir þó öruggara að spá Speak now í flutningi Leslies Odoms jr. sigri.
Fimm lög eru tilnefnd til verðlaunanna sem Húsavík keppir um, áðurnefnt Speak Now, Io Sí (Seen) úr kvikmyndinni The Life Ahead, Fight for You úr Judas and the Black Messiah og Hear My Voice úr The Trial of the Chicago 7.
Í umfjöllun Variety er einnig veðjað á að Speak Now muni fara með sigur af hólmi en sagt að Húsavík gæti þó unnið.
Breska blaðið The Guardian hefur fulla trú á Will Ferrell og hans fólki og spáir Húsavík sigri í sinni umfjöllun.
Myndböndin við öll lögin verða spiluð í þættinum Oscars: Into the Spotlight sem hefst klukkan 22:30 í kvöld. Verðlaunahátíðin sjálf hefst á miðnætti og verður sýnt frá henni á Rúv. Bein textalýsing fer fram hér á mbl.is í kvöld.