„Tækifæri sem við fáum aldrei aftur“

Daníel Annisius er formaður stjórnar Húsavíkurstofu.
Daníel Annisius er formaður stjórnar Húsavíkurstofu. Ljósmynd/Sonja Sif Þórólfsdóttir

Daníel Annisius, formaður stjórnar Húsavíkurstofu, segir gríðarlegt tækifæri felast í því að lag sem ber titil bæjarins sé tilnefnt til Óskarsverðlaunanna. Húsavíkurstofa hefur nýtt sér tilnefninguna til að markaðssetja bæinn og mikil vinna liggur að baki. 

„Þetta er búið að vera agalega gaman. Þetta lífgar upp á bæinn og allir koma saman að þessu. Fólk sem hefur kannski ekkert verið að tala saman, pólitík og allt þetta, en það leggjast allir á eitt til að láta þetta ganga,“ segir Daníel. 

Daníel sjálfur hefur til dæmis málað rauða dregilinn á Garðarsbraut þrisvar sinnum og átti hugmyndina að því að loka fyrir umferð bíla á dreglinum yfir helgina.

Hófst haustið 2019

Óskarsævintýrið hófst með því að lagið komst á stuttlista Akademíunnar fyrir Óskarsverðlaunin. Hjólin fóru svo að snúast þegar lagið hlaut tilnefningu.

Í öllum ævintýrum gerist eitthvað óvænt og þegar sænska söngkonan Molly Sandén kom með tveggja daga fyrirvara til Húsavíkur til að taka upp myndband fyrir lagið voru allir boðnir og búnir að leggja hönd á plóg. 

En ævintýrið hófst í rauninni haustið 2019 þegar bærinn var valinn fyrir Eurovisionmynd Wills Ferrells. Tökur fóru fram í bænum og heimsþekktir leikarar á borð við Rachel McAdams og Pierce Brosnan komu þangað. Kvikmyndin kom svo út á streymisveitunni Netflix í lok júní 2020. 

Molly Sandén á Húsavík um síðastliðna helgi.
Molly Sandén á Húsavík um síðastliðna helgi. Ljósmynd/Örlygur Hnefill

Fjöldi viðtala í sænskum miðlum

„Það leggjast allir á eitt um að láta þetta verða að veruleika og nýta þetta tækifæri. Þetta er tækifæri sem við fáum aldrei aftur. Við erum með myndina, Eurovision sem er stærsti viðburður í Evrópu og svo Óskarinn sem er stærsti viðburðurinn í Bandaríkjunum, og þetta tengist allt Húsavík. Ég held að fólk átti sig ekki á því hvað þetta er stórt tækifæri. Það eru milljónir manna búnar að heyra um Húsavík,“ segir Daníel. 

Mikið hefur verið fjallað um Húsavík, lagið og tilnefninguna, í erlendum fjölmiðlum síðustu daga. Breskir, sænskir, þýskir og bandarískir fjölmiðlar hafa ítrekað fjallað um lagið og spurt bæjarbúa spjörunum úr. Eiginkona Daníels, Alexia Annisius Askelöf, er frá Svíþjóð og hefur hún farið í fjölda viðtala í sænskum fjölmiðlum undanfarnar viku, enda eina manneskjan frá Svíþjóð á Húsavík.

Rauði dregillinn á Garðarsbraut á Húsavík.
Rauði dregillinn á Garðarsbraut á Húsavík. Ljósmynd/Sonja Sif Þórólfsdóttir

Halda boltanum á lofti

Daníel sér fyrir sér að sama hvort lagið vinnur Óskarinn eða ekki muni Húsavík áfram geta nýtt sér frægðina sem því fylgir að það var tilnefnt til verðlaunanna. 

„Við ætlum að reyna eins og við getum að halda þessum bolta á lofti. Við erum svo heppin að Eurovision er náttúrlega árlegur viðburður,“ segir Daníel. Stefnt er að því að opna Eurovisionsafn á Húsavík í maí og Húsavíkurstofa hefur fengið leyfi fyrir því að koma biðskýli sem var notað í kvikmyndinni fyrir á hafnarsvæðinu. Daníel sér einnig fyrir sér að hægt verði að sýna kvikmyndina í gamla kvikmyndahúsinu á Húsavík yfir sumarið. 

„Hvernig sem fer er gríðarlegur sigur að komast svona langt, að okkar fallega lag, um Húsavík, sé tilnefnt,“ segir Daníel að lokum. 

Óskarsverðlaunin fara fram í kvöld og verður bein textalýsing frá hátíðinni hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Veltu fyrir þér ferðalögum eða búferlaflutningum til fjarlægra staða. Njóttu þessarar góðu tilfinningar en bíddu þó aðeins með að taka mikilvægar ákvarðanir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Karin Härjegård
5
Solja Krapu-Kallio
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Veltu fyrir þér ferðalögum eða búferlaflutningum til fjarlægra staða. Njóttu þessarar góðu tilfinningar en bíddu þó aðeins með að taka mikilvægar ákvarðanir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Sarah Morgan
4
Karin Härjegård
5
Solja Krapu-Kallio