Í dönsku kvikmyndinni Druk segir af fjórum miðaldra vinum og menntaskólakennurum sem ákveða að sannreyna þá kenningu að þeim muni farnast betur í lífinu séu þeir alltaf með örlítið magn áfengis í blóðinu.
Fréttakona dönsku ríkisstöðvarinnar TV 2, Amalie Rud Seerup, ákvað nýlega að sannreyna þessa kenningu og tók frá heilan vinnudag í því skyni. Umfjöllunin hefur vakið athygli í landinu en fróðlegt myndskeið frá tilrauninni má sjá hér að neðan.
Tilraunina gerði Seerup af því tilefni að myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna á sunnudag. Svo fór að myndin hlaut þau og tók leikstjórinn Thomas Vinterberg við verðlaununum.
Í myndinni sjálfri hefur tilraunin ýmsar viðbúnar en líka óvæntar afleiðingar og uppgötva félagarnir nýjar hliðar á sjálfum sér og tilverunni.
„Nei, það var ekkert áfengi á tökustað og við þurftum að vinna í 12 klukkustundir á dag. Leikararnir áttu líka að leika, þeir áttu að þykjast vera fullir,“ sagði Vinterberg í viðtali við Morgunblaðið í desember, spurður hvort áfengi hefði nýst leikurum við tökur á myndinni.
Bætti hann við að fyrir tökur hefðu aðalleikararnir farið í „alkóhól-æfingabúðir“, æft sig bæði í því í að leika og drekka. Í þeim búðum var áfengi vissulega haft um hönd, sagði leikstjórinn, en ítrekaði að leiklist væri alltaf í eðli sínu þykjustuleikur.
Blaðamaður Morgunblaðsins spurði Vinterberg hvað honum þætti um danska drykkjumenningu en hún hefur verið gagnrýnd fyrir að vera heldur frjálsleg og Danir mikið gefnir fyrir sopann. „Eins og þið Íslendingar þekkið fara jólahlaðborð gjarnan úr böndunum,“ svaraði leikstjórinn sposkur og bætti við að hann væri bara stoltur af drykkjumenningu þjóðar sinnar.