Harry Bretaprins ásamt fjölda stjarna í Hollywood komu saman á tónleikum í Los Angeles í Bandaríkjunum í gær. Tilefnið var að hvetja til þess að hraða bólusetningum í öllum heiminum.
Tónleikarnir voru teknir upp og verða sýndir 8. maí næstkomandi í sjónvarpinu og á YouTube. Fullbólusettir áhorfendur voru á tónleikunum.
Stórstjörnur og stjórnmálamenn munu koma fram í útsendingunni, þar á meðal Frans páfi, Joe Biden Bandaríkjaforseti og Ben Affleck.
Harry Bretaprins mun einnig koma fram í útsendingunni. „Veiran virðir ekki landamæri, og aðgangur að bóluefni má ekki ráðast af landafræði,“ sagði Harry í innslagi sínu. Biden sagðist vinna nú að því að fá leiðtoga um allan heim til að gefa bóluefni til fátækari ríkja heimsins.
Frans páfi talaði á sömu nótum þegar hann hvatti fólk til að gleyma ekki viðkvæmustu hópum heimsins.
Tónleikarnir voru skipulagðir af alþjóðlegu samtökunum Clobal Citizen sem berst gegn útbreiðslu falsfrétta um bólusetningar og heimsfaraldurinn.