Helga Hvanndal, heimspekingur, landvörður og verðandi umhverfis- og auðlindafræðingur, er mikill heimsborgari og hefur ferðast víða í alls kyns ævintýraferðir og fjallgöngur. Síðasta ferðalag sem hún fór í fyrir heimsfaraldur var í janúarmánuði 2020. Þá heimsótti hún Nepal og eyddi þar tveimur mánuðum.
Upprunalega snerist ferðalagið um að sækja alþjóðlega landvarðaráðstefnu sem er haldin þriðja hvert ár. Hópur íslenskra landvarða fór saman og var ráðstefnan, sem stóð yfir í viku, haldin í þjóðgarði í Nepal. Yfir 600 landverðir hvaðanæva úr heiminum komu þar saman og segir Helga það hafa verið mjög áhugaverða upplifun.
„Þar var fólk úr sömu starfstétt sem er að gera rosalega mismunandi hluti. Sumir eru að berjast við veiðiþjófa eða skógarelda, alls konar sem er svo langt frá því sem við erum að gera hér á Íslandi. Við erum samt öll að vinna að sama heildarmarkmiði, í þágu náttúruverndar.“
Eftir ráðstefnuna nýtti Helga tækifærið til að fara í nokkrar fjallgöngur sem hún segir að hafi verið algjör draumur. Íslenski hópurinn fór meðal annars í grunnbúðir Everest. „Það er líklega eitt það magnaðasta sem ég hef gert, að vera þarna í Himalajafjöllunum. Þetta var ótrúlega erfitt líkamlega og andlega og reynir á, þar sem aðstæður eru mjög frumstæðar.“
Helga Hvanndal er 28 ára gömul Reykjavíkurmær sem hefur þó eytt dágóðum tíma á afskekktum stöðum. Hún er með BA-gráðu í heimspeki og stundar nú mastersnám í umhverfis- og auðlindafræði, en undanfarin fimm ár hefur Helga starfað sem landvörður. Þar á meðal í Dyrhólaey þar sem hún eyddi miklum tíma einsömul, sem eini íbúi eyjunnar.
Hér að ofan má sjá brot úr viðtalinu en Dagmál eru aðgengileg áskrifendum Morgunblaðsins hér. Einnig er hægt að kaupa vikupassa hér.