Söngkonan Britney Spears gagnrýnir útgáfu heimildarmynda um hana og segir að hræsni felist í útgáfu þeirra. Spears opnaði sig um myndirnar á Instagram í gær. BBC gaf nýverið út heimildarmyndina Battle for Britney: Fans, Cash and Conservatorship en áður hafði New York Times gefið út heimildarmynd um hana.
„2021 er klárlega betra en 2020 en ég bjóst aldrei við því að það yrði svona. Svo margar heimildarmyndir um mig í ár, um hvað öðrum finnst um líf mitt. Hvað get ég sagt? Ég er djúpt snortin,“ skrifaði Spears.
Með textanum birti hún myndband af sér að dansa.
„Svo mikil hræsni, þau gagnrýna fjölmiðla og gera svo nákvæmlega það sama?? Fjandinn, ég veit ekki, mér finnst alla vega gaman að geta sagt ykkur að ég hef gengið í gegnum erfiða tíma en ég hef átt miklu fleiri góðar stundir í lífinu og því miður mínu kæru vinir, ég held að heimurinn hafi meiri áhuga á því neikvæða,“ skrifaði Spears.
Spears hefur áður tjáð sig um heimildarmynd New York Times sem henni fannst heldur vandræðaleg.