Allt ætlaði um koll að keyra í Bretlandi síðasta haust þegar stórleikararnir Dominic West og Lily James sáust láta vel hvort að öðru í Róm. Nú hefur James tjáð sig í fyrsta skipti um fjölmiðlafárið án þess þó að segja nokkuð.
„Æ, ég er eiginlega ekki til í að tala um það. Það er margt ósagt en ekki núna er ég hrædd um,“ svaraði leikkonan á vef The Guardian þegar hún var spurð út í sögusagnirnar um ástarsamband þeirra.
West er kvæntur og neyddist til þess að útskýra hjónabandsstöðu sína eftir að myndir af West og James birtust í fjölmiðlum. West er 20 árum eldri en James og hefur verið kvæntur Catherine FitzGerald síðan 2010 og eiga hjónin saman fjögur börn.
Ljósmyndarar mættu fyrir utan hús hjónanna í fyrra eftir sögusagirnar og mynduðu þau. „Hjónaband okkar er traust og við erum enn saman,“ stóð á miða fyrir utan hús þeirra. West tjáði sig ekkert um ferðina til Rómar og James vill greinilega ekki heldur tjá sig efnislega um málið.