„Þetta snýst um sálarheill okkar“

Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri frumsýnir Ölmu í vikunni. Þá verða 29 …
Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri frumsýnir Ölmu í vikunni. Þá verða 29 ár síðan hún frumsýndi síðast kvikmynd á hvíta tjaldinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mínar kvikmyndir hafa í öllum tilvikum fæðst út frá einni mynd sem kviknað hefur í höfðinu á mér,“ segir Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri og handritshöfundur kvikmyndarinnar Ölmu sem forsýnd er í kvöld og frumsýnd á föstudag. 

Myndin skartar leikkonunum Snæfríði Ingvarsdóttur, Emmanuelle Riva og Kristbjörgu Kjeld í aðalhlutverkum. Alma er þriðja kvikmyndin í fullri lengd sem Kristín leikstýrir, en fyrri myndir hennar eru Á hjara veraldar sem frumsýnd var 1983 og Svo á jörðu sem á himni frá árinu 1992. Auk þess hefur hún aðlagað handrit og leikstýrt tveimur sjónvarpsmyndum.

Snæfríður Ingvarsdóttir í hlutverki sínu sem Alma. Þetta er myndin …
Snæfríður Ingvarsdóttir í hlutverki sínu sem Alma. Þetta er myndin sem kveikti hugmyndina að Ölmu í huga Kristínar Jóhannesdóttur leikstjóra.

„Í tilfelli Ölmu sá ég fyrir mér mynd af ungri konu sem felur andlit sitt í höndum sér en gægist milli fingranna, líkt og hún óttist að horfast í augu við heiminn en áræðir samt að gera það,“ segir Kristín og grípur um andlit sitt til að sýna blaðamanni. „Í framhaldinu þurfti ég að rekja mig áfram til að komast að því hvaða manneskja þetta væri sem ég sæi fyrir mér,“ segir Kristín og rifjar upp að hún hafi fljótlega áttað sig á því að manneskjan væri útlendingur hér á landi.

Ákveður að drepa mann fyrst hún er búin afplána dóminn

„Ég sá fyrir mér að hún hefði komið hingað ung að árum ásamt móður sinni eftir að hafa lifað af stríðshörmungar í fjarlægu landi sem ollu því að stúlkan varð fyrir mjög alvarlegu sálrænu áfalli eða tráma sem mótar allt hennar líf eftir það,“ segir Kristín og bendir á að á arameísku þýði alma heimur. „Á ítölsku, spænsku og portúgölsku þýðir alma sál. Alma er því meira en bara nafnið á konu, þetta er metafóra um um hvað málið snýst. Þetta snýst um sálarheill okkar og þar af leiðandi um það að finna jafnvægi í þessum heimi,“ segir Kristín og tekur fram að sér finnist það aðkallandi og verðugt rannsóknarefni að skoða hvað verði um öll þau börn sem alist hafa upp á stríðshrjáðum svæðum.

Alma ákveður að myrða fyrrverandi kærasta sinn þar sem hún …
Alma ákveður að myrða fyrrverandi kærasta sinn þar sem hún er þegar búin að afplána dóm fyrir glæpinn.

„Þegar myndin hefst verðum við vitni að þessu skelfilega áfalli Ölmu í æsku. Tuttugu og fimm árum síðar er Alma lokuð inni á réttargeðdeild eftir að hafa verið fundin sek um að hafa drepið kærasta sinn. Alma man hins vegar ekkert eftir kvöldinu þegar morðið á að hafa átt sér stað,“ segir Kristín og bendir á að í ljós kemur síðan eftir átta ár að kærastinn er sprelllifandi og „staddur í Damaskus af öllum stöðum“, segir Kristín og rifjar upp að þegar hún skrifaði handritið hafi ekki verið skollið á stríð í Sýrlandi.

Alma varð fyrir skelfilegu áfalli í bernsku sem þurrkaði út …
Alma varð fyrir skelfilegu áfalli í bernsku sem þurrkaði út minningar hennar.

Menn sem ásælast kvótann

„Þegar hún kemst að þessum svikum kærastans, það er að hann hafi sviðsett eigin dauða og komið sökinni á hana, fyllist hún hefndarhvöt. Hún ákveður að drepa hann úr því að hún er þegar búin að afplána dóm fyrir glæpinn,“ segir Kristín og bendir á að tvær innri raddir Ölmu fylgi henni stöðugt og reyni, líkt og draumar, að gera hana meðvitaða um ákveðinn sannleika sem hún vill ekki heyra. „Raddirnar reyna að koma Ölmu í skilning um að hún er ekki að leita að réttum sökudólgi. Sannleikurinn er hins vegar svo fjarstæðukenndur að hún er ekki tilbúin að hlusta. Það mun samt á endanum koma í ljós hvernig í öllu liggur,“ segir Kristín leyndardómsfull.

Emmanuelle Riva, Snæfríður Ingvarsdóttir og Kristbjörg Kjeld í hlutverkum sínum.
Emmanuelle Riva, Snæfríður Ingvarsdóttir og Kristbjörg Kjeld í hlutverkum sínum.

En hvernig tengjast konurnar tvær, sem Riva og Kristbjörg leika, Ölmu, sem Snæfríður leikur í myndinni?

„Konurnar tvær tóku Ölmu að sér þegar mamma hennar dó skömmu eftir komu mæðgnanna til landsins þegar Alma var enn barn að aldri,“ segir Kristín og tekur fram að eldri konurnar tvær séu hluti af sögum sem hún hafi heyrt úr fásinninu og tengist erlendum konum sem fluttu til Íslands eftir seinna stríð í leit að öruggu lífi. „Ég hafði heyrt sögu af manni sem fékk til sín tvær erlendar konur og gekk í þær báðar. Maðurinn í myndinni er útgerðarmaður sem er látinn þegar myndin hefst. Konurnar tvær hafa erft útgerðina og ætla Ölmu það að taka við henni eftir þeirra dag. Þessi útgerð er auðvitað á hausnum eins og margar útgerðir hringinn um landið. Það eru hins vegar menn sem ásælast kvótann, þannig að þetta eru mjög þekktar kringumstæður sem ég nota í þessu tilviki,“ segir Kristín.

Þannig að þú blandar óhikað saman röddum milli draums og veruleika annars vegar og eldfimum pólitískum efnivið hins vegar?

„Það hef ég gert í öllum mínum myndum. Ég ákvað það ekkert í upphafi ferilsins að draga fram díalektík milli ytra og innra lífs heldur gerðist þetta ósjálfrátt. En í þessum átökum andstæðra afla kviknar oft eitthvað nýtt. Ég held að það sé tilfellið með sögu Ölmu.“

Hetjuafrek að klára myndina

Í viðtali við Emmanuelle Riva sem birtist í Morgunblaðinu fyrir fimm árum þegar tökur myndarinnar stóðu sem hæst lýsti hún því að hún hefði eiginlega verið hætt að ferðast enda orðin 89 ára gömul. Hún hafi hins vegar ekki getað staðist það að leika í Ölmu þar sem hún hafi hrifist svo af handritinu sem þú sendir henni. Getur þú sagt mér meira?

„Já, hún hafði orð á því hvað henni fyndist þetta frábær heimur og spennandi nálgun á persónum. Ég sendi henni handritið í franskri þýðingu og talaði í framhaldinu lengi við hana í síma. Ég hef dáðst að þessari konu síðan ég sá hana í Hiroshima mon amour, sem hefur verið mikil eftirlætismynd mín í gegnum tíðina enda stórmerkileg. Það sem mér þykir mjög kjarkmikið af hennar hálfu er að hún brölti alla leiðina upp á Ísland til að leika í þessari mynd af því að hún trúði á hana og fannst þetta verkefni stórkostlegt þótt hún væri hætt að leika af því hún var þá orðin fárveik,“ segir Kristín, en Riva glímdi við krabbamein og lést snemma árs 2017.

Kristbjörg Kjeld og Emmanuelle Riva leika konur sem töku Ölmu …
Kristbjörg Kjeld og Emmanuelle Riva leika konur sem töku Ölmu að sér þegar móðir hennar dó.

„Það leyndi sér ekki hvað hún var sárkvalin og því var það mikið hetjuafrek að hún skyldi komast í gegnum þessa mynd. Þegar slökkt var á myndavélunum komst hún varla á milli herbergja, en um leið og kveikt var á vélunum varð hún eins og lóan sem skoppar um úti í móa. Þetta var með algjörum ólíkindum að verða vitni að því hvernig hún virtist fá einhverja orku við það að leika og vera þátttakandi í þessu kvikmyndaævintýri. Aðstæðurnar þegar teknar eru upp íslenskar kvikmyndir bjóða ekki upp á neina lúxusviðveru, þannig að ég mat það mikils við hana að hún skyldi leggja þetta á sig,“ segir Kristín, en Alma er síðasta myndin sem Riva lék í.

Barðist fyrir bættu mannlífi

Annar samstarfsmaður sem Kristín minnist með hlýhug og einnig er fallinn frá er László Rajk yngri sem var yfirmaður leikmyndadeildar Ölmu, en hann lést úr bráðakrabbameini 2019. „Hann átti aldeilis makalaust líf og var um það bil sá eini sem ég gat rætt við um merkingu myndarinnar. Hann horfði alltaf eins og furðu lostinn á mig þegar ég talaði við hann um bernsku Ölmu og hvaða afleiðingar áfallið hafði fyrir hana. „Ég þekki þetta,“ sagði hann og sú vissa byggðist á hans eigin reynslu. Það var djúpur skilningur.

Ungverjinn László Rajk yngri (1949-2019) var yfirmaður leikmyndadeildar kvikmyndarinnar Ölmu.
Ungverjinn László Rajk yngri (1949-2019) var yfirmaður leikmyndadeildar kvikmyndarinnar Ölmu.

Hann varð sem sagt fyrir álíka skelfilegu áfalli og Alma í bernsku. Eftir að stalínistar tóku föður hans af lífi eftir sýndarréttarhöld og vörpuðu móður hans í fangelsi var honum komið fyrir á munaðarleysingjahæli þar sem hann var fram að fimm ára aldri. Hann sagði mér að hann ætti ekki eitt einasta minningarbrot frá þeim tíma. Allt væri þurrkað út.

László Rajk yngri, aðeins sjö ára, árið 1956, ásamt móður …
László Rajk yngri, aðeins sjö ára, árið 1956, ásamt móður sinni, Juliönnu Foldi, við minningarathöfn um föður hans og nafna sem tekinn var af lífi 1949. Fleiri þúsund manns mætti í athöfnina og þá varð til hreyfingin sem síðan leiddi til uppreisnarinnar í Ungverjalandi.

Alla ævi var hann að berjast fyrir bættu mannlífi, starfaði með mörgum helstu kvikmyndaleikstjórum heims, var aktívisti og þingmaður. Sem arkitekt eru víðfræg minnismerki hans um fórnarlömb stalínismans. Hann gerðist sérfræðingur í útrýmingarbúðum nasista og hannaði Auschwitz-Birkenau-minningarbúðir gyðinga. Hann var víðfrægur fyrir verk sín og fyrirlestra beggja vegna hafsins,“ segir Kristín.

Góð og heillavænleg teikn

Í ljósi þess að rúm fimm ár eru síðan tökur hófust verð ég að spyrja hvað hefur tafið eftirvinnslu Ölmu.

„Ég get bara sagt að í gegnum allt þetta ferli við að gera þessa mynd hefur mér fundist eins og Alma yrði ekki bara fyrir aurskriðum heldur snjóflóðum og miklum náttúruhamförum. Það var ekki einleikið hvað hlutirnir lentu ítrekað í biðstöðu. Í fyrra féll snjófljóð á Flateyri með þeim afleiðingum að grafa þurfti unglingsstúlku út úr flóðinu. Þegar ég heyrði að nafn stúlkunnar væri Alma fannst mér það vera bæði gott og heillavænlegt teikn fyrir verkið.“

Það er auðvitað gömul saga og ný að það þarf mikið úthald í allri kvikmyndagerð.

„Þegar ég fékk heiðursverðlaun Eddunnar árið 2013 var ég nú eiginlega hætt í kvikmyndabransanum. Ég nennti ekki lengur að standa í þessu því þetta var orðin svo ótrúlega langvarandi barátta fyrir þessum handritum að kvikmyndum sem ég var með í handraðanum. Ég ætlaði mér til dæmis alltaf að gera myndabálk um öll skilningarvitin, sem Japanir segja að séu sjö,“ segir Kristín og vísar þar til sjónskynsins, heyrnarskyns, lyktarskyns, bragðskyns, snertiskyns, jafnvægisskyns og stöðu- og hreyfiskyns, og bendir síðan á að Japanir til forna hafi trúað því að sjöunda skilningarvitið væri beint samband við almættið.

Kristín Jóhannesdóttir segist í allri auðmýkt gjarnan viljað hafa gefa …
Kristín Jóhannesdóttir segist í allri auðmýkt gjarnan viljað hafa gefa fólki meira. Hún hafi frá upphafi ferilsins vitað að hún fengi ekki að gera óteljandi kvikmyndir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áttu að vera lokaorðin

„En það gekk hvorki né rak. Þegar ég hélt þessa ágætu þakkarræðu undir yfirskriftinni: „Hvað á þetta að þýða?“ ætlaðist ég til þess að þetta yrðu mín lokaorð í bransanum sem væru jafnframt hvatning til karla um að opna dyrnar fyrir konum,“ segir Kristín og rifjar upp að á leiðinni út úr salnum hafi hún fengið fyrirspurn frá framleiðendum um það hvort hún ætti ekki handrit sem hún gæti hugsað sér að kvikmynda. „Ég vissi að ég ætti fjölmörg handrit, en hugsaði málið og lagði til að Alma yrði fyrir valinu. Í framhaldinu tók ég til við að endurskrifa handritið og opnaði farveg fyrir forn skilningarvit, eins og innsæi og tengsl við kosmísk öfl. Það er auðvitað kvenlægt fyrirbrigði að endurnýta í anda hinnar hagsýnu húsmóður,“ segir Kristín og bendir á að handrit sé eitt höfundarverk og kvikmynda- eða sviðsverk annað.

Efnið er skrýtinn húsbóndi

„Handrit getur tekið ótrúlegum merkingarbreytingum þegar það kemur í efnið. Efnið er skrýtinn húsbóndi, sem getur opnað og eftir atvikum reyndar líka lokað möguleikum. Í kvikmyndum erum við stöðugt að berjast við það að efnið kostar. Fjármagnið takmarkar efnið, en einhvern veginn kemst maður samt alltaf í gegnum þetta. Aðalatriðið er að hafa ætíð meðferðis lyklakippu með þúsund lyklum sem opnað geta fyrir manni möguleika og hjálpað til við að finna lausnir,“ segir Kristín og bendir sem dæmi á að það hafi ekki verið heiglum hent að komast til Djúpavíkur að vetrarlagi þar sem taka átti lykilsenur.

Djúpavík er þorpið hennar Ölmu og þar voru vetrarsenur teknar …
Djúpavík er þorpið hennar Ölmu og þar voru vetrarsenur teknar upp.

„Ég var löngu búin að finna tökustaðinn á Djúpavík og vildi absólút mynda þar, því þetta var í mínum huga þorpið hennar Ölmu. Senurnar áttu að fara fram að vetrarlagi og því urðum við að bíða færis nokkuð lengi til að komast þangað, því Vegagerðin sinnir veginum ekki að vetrarlagi. Sem betur fer rættist úr seint og um síðir. Ég uppskar ríkulega fyrir að þreyja þorrann, því staðurinn er dásamlegur og síldarbræðslan smellpassaði fyrir myndina í samspili við umhverfið. Það var mjög mikilvægt fyrir mig að umhverfið væri í niðurníðslu og allt á hverfanda hveli. Staðurinn svaraði algjörlega þeirri ósk minni að allt umhverfið sýndi hrun samfélags á sama hátt og við verðum vitni að hruni einstaklingsins Ölmu og væri jafnframt í fullkominni andstöðu við þessa hvítu sterilíseruðu ganga réttargeðdeildarinnar,“ segir Kristín og tekur fram að hugmyndir hennar, hvort heldur er í kvikmyndum eða leikhúsi, kvikni ávallt út frá hinu sjónræna.

Kristín Jóhannesdóttir hrósar Snæfríði Ingvarsdóttur og segir hana sérstaklega næma.
Kristín Jóhannesdóttir hrósar Snæfríði Ingvarsdóttur og segir hana sérstaklega næma.

Dauðastund að ná réttri töku

„Ég leita sjálf að öllum tökustöðum og finn lausnir út frá því. Það sama gildir í leikhúsinu. Ég get ekki farið að vinna í einhverri sviðsmynd sem einhver annar hefur ákveðið. Það kvikna myndir í kringumstæðum og ég verð að elta þær hugmyndir og í framhaldinu kveikir ein hugmynd aðra. Allt er breytingum undirorpið. Það er ekkert, hvorki í kvikmyndum né leikhúsi, klappað í marmara. Þetta er allt lifandi, kvikt efni og síbreytilegt. Það er það sem er svo dásamlegt við sköpunina. Þetta er eins og lífið. Við erum stöðugt að skapa okkur og lífið, eins og myndlistarmaður er stöðugt að þróa mynd á ramma, alltaf að bæta einhverjum nýjum lit við og kannski fara í nýjar áttir sem enginn sá fyrir.“

Talandi um leikhús þá hefur þú verið virkur sviðsleikstjóri í gegnum tíðina. Hvernig horfa þessir tveir miðlar við þér sem leikstjóra?

„Kvikmyndin og leikhúsið eru gjörólíkir miðlar. Leikhúsið er lifandi miðill og hluti af helgiathöfn sem krefst nærveru. Leikhúsið er list augnabliksins og því eru engar tvær sýningar eins,“ segir Kristín og tekur fram að hún hvetji fólk til að sjá leiksýningar oftar en einu sinni með einhverju millibili til að sjá hvernig þær þróast. „Kvikmyndirnar aftur á móti eru einhvers konar röð dauðamómenta. Það er alltaf ákveðin dauðastund þegar þú ákveður á setti að búið sé að ná réttu tökunni, sem verður eftir það ekki breytt. Þó svo að okkur finnist kvikmyndir einhvern veginn vera raunverulegri og raunsærri en leikhúsið, þá er kvikmyndin alltaf ákveðinn draumur. Ég vísa nú bara í Luis Buñuel í því sambandi. Í kvikmyndasal fara áhorfendur út úr sjálfum sér og varpa sér inn í tálsýnina sem kvikmyndin er. Kvikmyndin er draumsýn sem er ekki til í raun, þó eða jafnvel vegna þess að hún er gerð á mjög raunverulegan hátt.“

Á félaga í hugmyndunum

Aðal leiksýninga þinna hefur iðulega verið hversu sjónrænt sterkar þær eru. Upplifir þú einhver líkindi milli þess hvernig þú vinnur sjónrænt fyrir leikhúsið annars vegar og kvikmyndina hins vegar?

„Mér finnst mjög spennandi að fara á milli þessara tveggja miðla af því hvað þeir eru ólíkir. Í leikhúsi ferðu ekki auðveldlega milli staða. Í leikhúsi verður þú því alltaf að kjarna ákveðinn stað. Mér finnst einmitt mjög spennandi að vinna mig inn að kjarna verksins til að finna þetta innra rými sem er líka ytra rýmið. Þetta er staður helgileiksins sem segir fullt eins mikið um hvað leikritið er eins og leiktextinn sjálfur.“

Hefði viljað gefa fólki meira

Sérðu fyrir þér að þú munir gera fleiri kvikmyndir á ferlinum?

„Helstu leikstjórar heims hafa verið að gera myndir jafnvel yfir nírætt. Í huga mínum er ekki þverfótandi fyrir hugmyndum að nýjum kvikmyndum og nýjum sviðsetningum. Ég nærist á þessum hugmyndum. Í allri auðmýkt hefði ég gjarnan viljað gefa fólki meira. Það var að minnsta kosti minn draumur. En ég vissi það líka fyrir fram þegar ég byrjaði í kvikmyndum að ég myndi ekki fá að gera óteljandi myndir. Kringumstæður og umhverfið var þannig. Ég sagði einhvern tímann á einhverjum nefndarfundi hjá kvikmyndasjóði að ég væri að spekúlera í því að gera sjö myndir um skilningarvitin og þá spurði einn nefndarmanna: „Hvernig heldur þú að þú getir gert það?“ Það var því ekki verið að hvetja mann áfram. En til þess að geta gert kvikmynd er nauðsynlegt að finna framleiðanda sem hægt er að treysta. Sigurður var einn slíkur en hann kaus að einbeita sér að skáldskapnum eftir tvær kvikmyndir okkar saman, ákvörðun sem ég skildi djúpum skilningi,“ segir Kristín, eftirlifandi ekkja Sigurðar Pálssonar skálds sem lést haustið 2017.

Ég þrífst á sköpuninni

Þú hefur sjálf skrifað handritin að kvikmyndum þínum. Hefur þér aldrei dottið í hug að leikstýra eigin leikriti á sviði?

„Nei, aldrei hefur sú hugsun flögrað að mér. Kannski af því ég var gift leikskáldi og setti á svið verk hans. Mér fannst það fullkomið fyrirkomulag. Mér datt bara aldrei í hug að skrifa fyrir leikhús þar eð verk Sigurðar voru þau bestu, en hver veit nema ég geri það. Það er þó heilt lífsstarf að verða gott leikritaskáld. Úr því að þú minnist á þetta þá fæðist kannski einhver hugmynd,“ segir Kristín kímin og tekur fram að hún sé að minnsta kosti ekki sest í helgan stein. „Mér finnst ég hafa þrek og löngun og gleði af því að vinna áfram í leikhúsinu – og þess vegna kvikmyndum líka ef hagstæðar kringumstæður skapast. Ég er til í hvað sem er. Ég þrífst á sköpuninni.“

Kristín Jóhannesdóttir segir magnað að sjá hvernig konur í kvikmyndagerð …
Kristín Jóhannesdóttir segir magnað að sjá hvernig konur í kvikmyndagerð skynja tímann með öðrum hætti en karlmenn. Þær séu einnig miklu óhræddari við að brjóta upp línulega frásagnarformið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Konur skynja tímann öðruvísi

Að lokum er ekki úr vegi að spyrja hvort þú sjáir einhverja breytingu til batnaðar frá því þú fluttir eldheita þakkarræði þína þegar þú tókst við heiðursverðlaunum Eddunnar árið 2013? Í ræðunni gerðir þú rýran hlut kvenna í kvikmyndum að umtalsefni og minntir á að slíkur ójöfnuður hamlaði ekki bara eðlilegri framþróun greinarinnar heldur samfélagsins alls. Þú kallaðir eftir því að konur fengju að segja fleiri sögur og að sögur kvenna væru sagðar. Alma er ótvírætt kvennasaga og á nýliðnum árum hafa til dæmis bæði Silja Hauksdóttir og Ísold Uggadóttir sagt sterkar kvennasögur í myndum sínum. Heldur þú að ræða þín hafi haft jákvæð áhrif á kvikmyndabransann hérlendis?

„Ég get ekki varist því að tengja þær breytingar sem orðið hafa í bransanum a.m.k. að einhverju leyti við ræðuna. Ég man eftir þessum tveimur ungu konum á hátíðinni þegar ég flutti þessa hvatningarræðu. Hópur kvenna í kvikmyndabransanum mætti á verðlaunaafhendinguna klæddar í jakkaföt og sumar með gerviskegg til að vekja athygli á rýrum hlut kvenna í bransanum. Skilaboðin voru skýr: Þurfum við að vera eins og karlar til að fá inngöngu inn í kvikmyndasamfélagið?

Ég vissi að ég yrði í beinni útsendingu og hefði forseta Íslands sem lífvörð á sviðinu þannig að enginn gæti stoppað mig í miðri ræðu. Ég ákvað því að láta bara vaða,“ segir Kristín og rifjar upp að ræðan hafi valdið ákveðnu uppnámi hjá sumum. „En í framhaldinu fékk ég fjölda tölvupósta frá konum hvaðanæva á landinu sem mér þótti ótrúlega vænt um og langar að nota tækifærið hér til að þakka fyrir þessa fallegu pósta. Konurnar þökkuðu mér fyrir ræðuna og höfðu margar orð á því hversu mikilvægt það væri að konur fengju tækifæri til að sjá á hvíta tjaldinu sögur kvenna út frá forsendum kvenna, en ekki bara með augum karla,“ segir Kristín og tekur fram að myndmálið sjálft segi sitt um upplifun og hvernig konur sjá heiminn.

„Sem dæmi er magnað að sjá hvernig konur skynja tímann með öðrum hætti en karlmenn og eru einnig miklu óhræddari við að brjóta upp línulega frásagnarformið,“ segir Kristín og vísar í því samhengi til heimildarþáttanna Women Make Film: A New Road Movie Through Cinema frá 2018 sem Mark Cousins gerði, en þættirnir, sem eru samtals 14 klukkustundir í spilun, spanna 13 áratugi og fimm heimsálfur í viðleitni sinni til að skrásetja hvernig konur hafa nýtt kvikmyndamiðilinn sem listform í gegnum tíðina.

„Mark Cousins skoðaði kvikmyndagerð kvenna frá upphafi og komst að því að það eru til myndir eftir þúsundir kvenna sem enginn hefur heyrt minnst á eða nokkur man eftir. Hann tekur til meðhöndlunar 183 konur og þar á meðal eru snilldarverk sem standa upp úr í kvikmyndasögunni. Ég horfði á þessa þætti þegar þeir voru sýndir í sænska ríkissjónvarpinu og skora á RÚV að sýna þá hérlendis,“ segir Kristín að lokum. Viðtalið birtist fyrst í Morgunblaðinu fimmtudaginn 29. apríl. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að uppgötva nýja hluti og þarft að gefa þér tíma til að njóta þeirra sem best þú getur. Þú átt á hættu að vera misskilinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert að uppgötva nýja hluti og þarft að gefa þér tíma til að njóta þeirra sem best þú getur. Þú átt á hættu að vera misskilinn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar