Ellen DeGeneres greindi frá því í spjallaþætti sínum að hún væri flutt inn í til leikkonunnar Courteney Cox. Portia de Rossi, eiginkona DeGeneres, henti henni ekki út og er ástæðan frekar óspennandi.
DeGeneres kynnti Cox sem leigusalann sinn en Cox sagðist frekar líta á hana sem herbergisfélaga. „Já við erum herbergisfélagar. Við hittumst lítið en við erum herbergisfélagar,“ sagði DeGeneres.
„Ég ætti að útskýra þetta. Ég glími ekki við hjónabandserfiðleika. Mér var ekki hent út. Ég bý ekki hjá Courteney Cox af því mér var hent út úr húsinu. Við seldum húsið okkar í Beverly Hills og ég þurfti að búa einhversstaðar,“ útskýrði DeGeneres sem þáði gott boð Cox.
Þær eru í raun ekki herbergisfélagar. Cox hefur dvalið í Lundúnum hjá kærasta sínum að undanförnu og sagðist í þættinum ekki hafa verið í húsinu í heilt ár. Cox lét þrífa húsið áður en DeGeneres flutti inn og bjó til pláss fyrir dót DeGeneres. Þegar aðstoðarmaður Cox fór í skoðunarferð um húsið kom í ljós að DeGeneres hefði tekið hennar hlið. DeGeneres kenndi þó eiginkonu sinni um.
Í spilaranum hér að neðan má sjá viðtal DeGeneres við Cox.