Leikarinn og uppistandarinn Vilhelm Neto er ósáttur við að vera ekki tilnefndur af mbl.is sem líklegur stigakynnir Íslands í Eurovision laugardaginn 22. maí næstkomandi. Líkt og sjá má á meðfylgjandi tísti vonaðist hann til þess að traust vinátta sín við mbl.is dygði til þess að hann yrði tilnefndur.
Af hverju ertu ósáttur við að hafa ekki verið tilnefndur af mbl.is sem stigakynnir?
„Hahah, það var mest í gríni sko! Smá callback á þegar ég var að reyna mitt besta til þess að fá að kynna stigin fyrir Ísland þegar við vorum að keppa í Portúgal árið 2018.“
Vilhelm, eða Villi eins og hann er oft kallaður, er mikill Eurovision-aðdáandi. Hann fæddist í Portúgal, en hann á íslenska móður og portúgalskan föður. Bæði lönd tengjast honum því sterkum böndum. Þegar Salvador Sobral sigraði fyrir hönd Portúgals árið 2017 táraðist Villi af gleði í eigin Eurovision-partíi.
Í kjölfarið á sigri Portúgals hóf leikstjórinn Tryggvi Gunnarsson undirskriftasöfnunina „Fáum Vilhelm Neto til að kynna stig Íslands í Eurovision 2018!“ Á annað hundrað skrifuðu undir honum til stuðnings.
Var svo alveg horft fram hjá þér árið 2018?
„... ég skil það samt alveg, menn frekar nýir í bransanum, þetta er bara því ég er svo mikill Eurovision-aðdáandi, hefði verið stuð, en fékk síðan frábært, jafnvel betra tækifæri, þar sem ég fékk að taka mjög skemmtilegt viðtal við hann Salvador Sobral.“
Í Gísla Marteini í kvöld verður tilkynnt hver verður fyrir valinu sem stigakynnir Íslands. Hefur þú eitthvað heyrt frá Gísla Marteini?
Villi segist þó hafa nóg fyrir stafni verði hann ekki fyrir valinu sem stigakynnir í Eurovision. „Ég er alltaf að bralla eitthvað með uppistandshópnum mínum VHS. Mörg verkefni í uppsiglingu þar, annars er ég að skipuleggja margt spennandi, stóra sketsa fram undan og hver veit, kannski smá tónlist.“
Spurning um að senda lag inn í forkeppni Eurovision 2022?
„Hver veit, grínlögum hefur yfirleitt gengið vel. Kannski maður ræsi nokkra með sér.“