Íslenski Eurovision-hópurinn lagði í morgun af stað til Rotterdam í Hollandi, þar sem Daði og Gagnamagnið stíga á svið fimmtudaginn 20. maí.
Á síðustu dögum hefur lagið 10 Years farið upp um þrjú sæti í veðbönkum og er á mikilli siglingu. Laginu er sem stendur spáð 5. sæti.
Í gær var greint frá því að gefið hefur verið út smáforrit með öllum lögum Daða og Gagnamagnsins og þar fær notandinn að láta ljós sitt skína í karaoke.
Fyrirtækið Mussila gefur leikinn út og er smáforritið frítt og fáanlegt á App Store og Google Play um heim allan. Daði Karaoke er annað smáforritið sem Mussila hefur gefið út í samvinnu við Daða Frey. Það fyrra kom út fyrir þremur árum og nefnist Neon Planets.
Fyrri undankeppnin fer fram 18. maí en sú síðari 20. maí. Úrslitakeppnin sjálf er síðan 22. maí. Alls taka 39 lönd þátt í keppninni sem er nú haldin í 65. skipti.
Hér er hægt að kynna sér allt það nýjasta varðandi Eurovision-keppnina.