Mark Evans, faðir söngkonunnar Adele, er látinn 57 ára að aldri. Evans lést á þriðjudag eftir áralanga baráttu við ristilkrabbamein.
Evans yfirgaf Adele og móður hennar, Penny Adkins, þegar hún var aðeins þriggja ára að aldri og hefur söngkonan verið í litlum samskiptum við hann síðan. Adele fagnaði 33 ára afmæli sínu um daginn.
Evans, sem glímdi við alkóhólisma, sagði frá því í fjölmiðlum eftir að dóttir hans varð fræg að þau hefðu náð aftur saman. Adele neitaði þeim fullyrðingum föður síns í viðtölum í gegnum árin og sagðist ekki elska föður sinn. Hún sagði jafnframt að hún hataði hann ekki.
Í viðtali árið 2011 viðurkenndi Evans að hann hefði ekki verið góður faðir. Hann kenndi áfenginu um. „Ég drakk tvo lítra af vodka og sjö eða átta stellur á hverjum degi. Ég drakk þannig í þrjú ár. Aðeins Guð veit hvernig ég lifði það af,“ sagði Evans.