Árbæingar og gestir þeirra eiga von á því að heyra nýtt lag á Fylkisvellinum í sumar. Lagið heitir Við erum Árbær en það eru tónlistarmennirnir Ágúst Bent og Slaemi sem standa að laginu. Báðir eru þeir úr Árbænum og er textinn óður til hverfisins og þess sem þaðan er sprottið.
„Bent og Slaemi hentu í lagið að beiðni meistaraflokka Fylkis í knattspyrnu til að peppa sig upp fyrir leiki sumarsins í Pepsi Max-deildunum. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til því hér er alger „banger“ á ferð,“ segir í fréttatilkynningu frá Fylki.
Lagið er töluvert harðara en það sem áður hefur heyrst í lautinni, heimavelli Fylkis. Í textanum er minnst á að undirheimarnir, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur og Unnur Birna Vilhjálmsdóttir, fyrrverandi ungfrú heimur, eigi sterkar tengingar við hverfi 110. Einnig er rappað um slagsmál og hamborgaratilboð í Skalla.
Í spilaranum hér að neðan má hlusta á lagið.