Tiffany Trump, dóttir Donalds Trumps fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, og Vanessa Trump, fyrrverandi tengdadóttir Trumps, eru sagðar hafa átt í nánum samskiptum við leyniþjónustumenn sem voru skipaðir til þess að vernda fjölskyldu Trumps.
Þetta kemur fram í bókinni Zero Fail: The Rise and Fall of the Secret Service að því er fram kemur á vef The Guardian. Bókin er eftir verðlaunablaðamanninn Carol Leonnig og kemur út í næstu viku. Samband Trump-kvennanna við leyniþjónustumennina er sagt hafa verið bæði „óviðeigandi og mögulega hættulega náið“ eins og það er orðað í bókinni. Leyniþjónustumenn mega ekki eiga í persónulegum samskiptum við það fólk sem þeir vernda.
Í bókinni kemur fram að starfsmenn leyniþjónustunnar hafi tilkynnt að Vanessa Trump hafi átt í sambandi við mann í leyniþjónustunni. Vanessa Trump var gift Donald Trump yngri en sótti um skilnað í mars 2018. Í bókinni kemur fram að leyniþjónustumanninum hafi ekki verið refsað þar sem hann sá ekki um að vernda Vanessu Trump á þeim tíma sem sambandið átti sér stað.
Einnig kemur fram að Tiffany Trump, dóttir Donalds Trumps og Mörlu Maples, hafi hætt með kærasta sínum og byrjað að verja óeðlilega miklum tíma ein með leyniþjónustumanni. Samkvæmt bókinni urðu leyniþjónustumenn áhyggjufullir vegna þess hversu náin Tiffany Trump og hávaxinn, dökkhærður og myndarlegur leyniþjónustumaður voru.
Á vef People kemur fram að talsmaður Tiffany Trump segi ásakanirnar eintómt slúður.