Mikilvæg æfing hjá Daða í Rotterdam í dag

Daði og Gagnamagnið við sérmerkta rafmagnsbíla í Rotterdam.
Daði og Gagnamagnið við sérmerkta rafmagnsbíla í Rotterdam. Ljósmynd/Rúnar Freyr Gíslason

„Það hefur allt gengið mjög vel til þessa. Æfingin á mánudag gekk betur en við þorðum að vona en annars höfum við mikið verið uppi á hóteli,“ segir Eurovisionfarinn Daði Freyr Pétursson.

Daði og Gagnamagnið komu til Rotterdam um síðustu helgi en þar fer Eurovisionkeppnin fram í næstu viku.

Góð stemning var í hópnum í gær.
Góð stemning var í hópnum í gær. Ljósmynd/Rúnar Freyr Gíslason

Ísland stígur á svið á seinni undanúrslitakvöldinu á fimmtudag. Mikilvæg æfing verður hjá hópnum í dag.

„Það er búningaæfing. Við verðum í búningum, greidd og förðuð. Mér skilst að ef eitthvað kemur upp á geti upptaka frá þessari æfingu verið notuð í keppninni. Þannig að það er alveg séns að við séum að keppa í dag,“ sagði Daði. Hann segir aðspurður að aðeins hafi þurft að gera smávægilegar breytingar á atriði hópsins eftir fyrstu æfinguna. 

Góð stemning er í íslenska hópnum þrátt fyrir að sóttvarnaráðstafanir komi í veg fyrir að hann geti farið allra ferða sinna frjáls. Raunar mega Daði og félagar aðeins fara út í stuttar gönguferðir og þurfa reglulega að fara í kórónuveirupróf.

Kvöldvaka var hjá íslenska hópnum á þriðjudagskvöld. Þar voru ýmsir leikir á dagskrá auk pöbbkviss. Sjónvarpsmaðurinn Gísli Marteinn Baldursson vann kvissið með nokkrum yfirburðum að sögn Daða.

Fara á rauða dregilinn og beint heim

Daði hefur farið í fjölda viðtala síðustu daga og fram undan eru fleiri æfingar. Annað rennsli verður á miðvikudaginn í næstu viku og eftir helgi verður sömuleiðis viðburður þar sem keppendur labba á rauðum dregli og pósa fyrir myndavélar. „Svo förum við bara aftur upp á hótel því það er búið að slaufa opnunarhátíðinni. Þetta er allt voða skrítið,“ segir Daði.

Hann býst við að senda frá sér ný eurovision-kóver af þekktum lögum á youtube-rás sinni á næstu dögum sem hann gerir með Huldu og Sigrúnu Birnu úr Gagnamagninu. 

Gagnamagnið með bruggurunum í Borg brugghúsi þegar 10 Beers varð …
Gagnamagnið með bruggurunum í Borg brugghúsi þegar 10 Beers varð til.

Daði og Gagnamagnið gerðu sérstakan eurovision-bjór í samstarfi við Borg brugghús og kallast hann 10 Beers með vísan til lagaheitisins 10 Years. Bjórinn er að sjálfsögðu með í för á keppninni.

„Ég held að það séu ekkert mjög margir sem ferðast með fulla tösku af bjór til Hollands. Okkur fannst nauðsynlegt að vera með 10 Beers á keppninni, þetta fullkomnar pakkann. Allir í merktum peysum og með merktan bjór. Og að sjálfsögðu skáluðum við eftir æfinguna á mánudaginn.“

Daða og samstarfsfólki hans hefur ekki tekist að koma öðrum tónlistarmönnum sem taka þátt í Eurovision í kynni við Ten Beers enda bjóða sóttvarnatakmarkanir ekki upp á mikið samneyti við aðra. Það hefur þó ekki komið í veg fyrir að áhugafólk um Eurovision, og af því er nóg um allan heim, hefur sýnt bjórnum mikinn áhuga. Því hefur Árni Theodór Long, bruggmeistari Borgar brugghúss, fengið að kynnast síðustu daga.

„Maður hefur gjarnan heyrt að það horfi enginn á þessa keppni nema Íslendingar en það virðist nú mögulega ekki alveg vera svo einfalt. Það allavega rignir yfir okkur spurningum um hvar og hvenær 10 Beers muni fást í hinum og þessum löndum. Maður hefur varla undan að afsaka sig á alls konar tungumálum og var ekki alveg undir það búinn enda ekkert farið í þessa hlið í bruggnáminu,“ segir Árni.

„Þá eru bæði hollensku og dönsku fyrirtækin sem selja fyrir okkur búin að skamma okkur fyrir að þeir séu ekki komnir með bjórinn í sölu. Það er sko ekkert grín að láta skamma sig á ensku með dönskum hreim,“ bætir Árni við.

Illgerlegt að flytja bjórinn út 

Árni og félagar hafa getið sér gott orð fyrir bruggun handverksbjórs. Slíkur bjór er oft mjög tilraunakenndur og sannarlega ekki allra. Það á ekki við um 10 Beers sem lýst er sem fullkomnum bjór fyrir júróvisjónpartíin. Hann er af Cream Ale-gerð, eða Créme Daða Créme svo vitnað sé til orða Árna.

Hann játar þó að hæpið sé að hægt sé að verða við óskum júrónörda frá nágrannalöndum okkar í Skandinavíu og víðsvegar um Evrópu að fá að smakka bjórinn á næstu dögum. Íslendingar sitja því einir að honum.

Ljósmynd/Rúnar Freyr Gíslason

„Við lögðum upp með það með Gagnamagninu að brugga bjór sem væri í toppgæðum í íslenskum júróvisjónpartíum og væri svo mögulega til eitthvað aðeins áfram en hugmyndin var aldrei að selja hann erlendis. Hann kom ekki í sölu fyrr en í síðustu viku og í raun er illgerlegt að flytja hann til útlanda og koma honum í hillur sölustaða í tæka tíð fyrir Júróvisjón. Við þurfum hins vegar sennilega að endurskoða allt þetta plan þegar Daði og Gagnamagnið sigra í Júróvisjón og brugga þá miklu meira magn fyrir alla!“ segir Árni að endingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu þér far um að vera jafn praktískur og þú ert tilfinninganæmur. Reyndu að sýna fyrirmennum eða yfirboðurum almennt kurteisi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Gerðu þér far um að vera jafn praktískur og þú ert tilfinninganæmur. Reyndu að sýna fyrirmennum eða yfirboðurum almennt kurteisi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Torill Thorup
5
Birgitta H. Halldórsdóttir