Grínistinn John Mulaney og eiginkona hans, listakonan Anne Marie Tendler, eru að skilja. Mulaney bað um skilnað frá eiginkonu sinni eftir að hann kom úr meðferð. Hjónin giftu sig árið 2014.
Mulaney fór í meðferð vegna kókaín- og áfengisneyslu í desember. Hann útskrifaðist í febrúar en hefur haldið áfram á göngudeild. Hann sótti um skilnað fyrir þremur mánuðum.
Talsmaður Mulaneys staðfesti skilnaðinn á vef Page Six. „John mun ekki segja neitt meira nú þegar hann heldur áfram að einbeita sér að batanum og vinnunni,“ sagði talsmaðurinn. „Ég er miður mín yfir því að Mulaney ákvað að binda enda á hjónaband okkar,“ sagði Tender en óskaði þó eiginmanni sínum góðs bata.
Mulaney skaut upp á stjörnuhimininn í Saturday Night Live-grínþáttunum. Hann er byrjaður aftur að koma fram og standa nú yfir uppistandssýningar með honum í New York.