„Þegar við byrjuðum að semja verkið voru veislur bara aðalmálið og sumir voru að fara í þrjár veislur á dag og partí út um allan bæ. Svo er það bara einhver veruleiki sem við höfum ekki þekkt núna í að verða ár. Núna er þetta meira orðið eins og upprifjun á því hvað veisla er og við erum meira að hugsa núna að okkur langi til að bæta fólki upp allar veislurnar sem það missti af,“ segir Saga Garðarsdóttir, leik- og fyndlistarkona með meiru, sem hafði yfirumsjón með skrifum handrits sýningarinnar Veisla sem loksins verður frumsýnd á Stóra sviði Borgarleikhússins í kvöld en átti upphaflega að frumsýna á Litla sviðinu í mars í fyrra.
Aðrir höfundar handrits eru leikkonurnar Sigrún Edda Björnsdóttir og Katla Margrét Þorgeirsdóttir og leikararnir Sigurður Þór Óskarsson og Halldór Gylfason. Þau leika öll í verkinu auk Björns Stefánssonar en leikstjóri er Bergur Þór Ingólfsson.
„Þetta er náttúrlega algjör stuðsýning,“ segir Saga um Veislu en handritsvinnan hófst í febrúar í fyrra. Frumsýningu hefur verið frestað margoft vegna Covid-19 og segir Saga sýninguna nú farna að daðra við að vera söngleikur. „Við vorum alltaf að bæta við fleiri og fleiri lögum af því við höfðum svo mikinn tíma,“ útskýrir hún.
–Er það kannski jákvæða hliðin á þessari annars slæmu stöðu vegna farsóttarinnar, að verkið hefur vaxið og dafnað?
„Já, algjörlega. Það er búið að vera mjög óvanalegt að sitja á grínefni svona lengi.“
–Ég sá kynningarmyndband fyrir Veislu og fannst ég skynja þar ákveðna ádeilu á íslenska veislumenningu.
„Já, við erum náttúrlega bara að gera grín að okkur sjálfum og öllum þessum persónum sem við þekkjum, fulla millistjórnandanum og löngu ræðunni og því dæmi öllu.“
Veislur eru af ýmsu tagi og þeirra á meðal fermingarveislur og ættarmót sem geta orðið vandræðaleg, eins og spaugað er með í myndbandinu fyrrnefnda. Saga segir að við skrif handritsins hafi leikararnir í upphafi velt fyrir sér hvað þeir tengdu við veislur. „Það sem var einna áhugaverðast var að mjög margir voru með einhvern veislukvíða, kvíða yfir því að hafa ekkert að segja, halda ekki nógu góða veislu, sitja við hliðina á einhverjum sem þú þekkir ekki eða vita ekki hvaða fólk þetta er. Að hafa áhyggjur af því að það sé ekki nægur matur og bara alls konar áhyggjur. Það er svo rosalega mikil eftirvænting sem þýðir að það getur orðið rosalega mikið hrap líka. Það á að vera gaman og þetta er eins og að segja brandara, hann á að vera fyndinn og það er svo rosalega óþægilegt ef hann misheppnast,“ segir Saga kímin.
–Það er rosalega vont að halda partí sem er ekki skemmtilegt.
„Já, ég er mjög smeyk oft við að halda upp á afmælið mitt af því ég er svo hrædd um að það verði ekki nógu skemmtilegt og enginn muni mæta, að ég muni spila ömurlega tónlist og þetta verði bara vandræðalegt.“
Saga telur fólk almennt vilja að veisluhöld gangi upp og veislan sé vel heppnuð. „Þetta er það sama og við þekkjum hjá litlum börnum um jólin; það á að vera svo gaman og þess vegna er mjög stutt í að fólk brotni saman,“ segir Saga. „Þú drekkur einu bolluglasi of mikið og ert farinn að gráta inni í eldhúsi.“
–Er saga í verkinu?
„Nei, þetta er sketsasýning, byggð upp eins og sketsaþáttur eins og til dæmis Áramótaskaupið en þemað er veisla. Þetta eru lítil atriði sem snúast um veislumenningu Íslendinga,“ svarar Saga.
Berndsen og Þórður Gunnar Þorvaldsson eru meðal þeirra sem sömdu tónlist við sýninguna og segir Saga að uppleggið hafi verið að búa til algjöra partítónlist. „Svo bættust mánuðirnir við og við fengum fleiri hugmyndir þannig að nú myndi ég segja að þetta væru mjög fjölbreytt lög, allt frá kórlögum sem við hópurinn sömdum reyndar fyrir kórpartí og svo erum við líka með diskó, sexí lag, Disney-lag og það bara hlóðst ofan á þetta,“ segir Saga.
Hún segist að lokum mjög spennt fyrir því að fá loksins að sýna leikhúsgestum Veislu en um leið stressuð. „Við erum búin að eiga sjö skrifaða frumsýningardaga sem hefur öllum verið frestað þannig að ég eiginlega þori ekki að trúa því að þetta sé að fara að gerast!“ segir Saga og hlær við. Best að krossa fingur.