Ný heimildarmynd Ians Wrights um heimilisofbeldi, Home Truths, þykir í senn áhrifamikil og einlæg en þar leggur knattspyrnumaðurinn fyrrverandi út af erfiðri eigin reynslu sem barn.
Meðan hann lék knattspyrnu geislaði hann af sjálfsöryggi, sjarma og gleði. Eftir að hann gerðist sparkskýrandi í sjónvarpi hefur hann geislað af sjálfsöryggi, sjarma og gleði. Hvar sem hann kemur er Ian Wright hvers manns hugljúfi og hrókur alls fagnaðar. Þannig hefur það þó fráleitt alltaf verið; æska hans var gífurlega erfið, lituð af grimmd og ofbeldi, andlegu sem líkamlegu. „Ian, ég vildi óska þess að ég hefði látið eyða þér,“ sagði móðir hans blákalt við hann átta ára gamlan. Á því augnabliki vissi hann ekki hvað hún var að fara en komst fljótlega að því.
Sjálf var móðir hans fórnarlamb heimilisofbeldis, sambýlismaður hennar og stjúpfaðir Wrights lagði á hana hendur. „Ég man hvað ég hataði hann innilega,“ segir Wright í myndinni, „og var hræddur við hann. Hann var svo stór og röddin ógnvekjandi.“ Í eitt skiptið reyndi stjúpinn að kyrkja móður hans. „Hún var að reyna að biðjast afsökunar meðan hann var með hendurnar utan um hálsinn á henni. Og maður spyr sig hvort henni sé óhætt, hún sem er svo smávaxin. Það gerði mig svo hjálparvana. Mamma var oftar en ekki boxpúði stjúpa míns.“
Í heimildarmyndinni Home Truths, sem frumsýnd var í breska ríkissjónvarpinu, BBC, á dögunum, rifjar Wright þessa erfiðu lífsreynslu upp og snýr aftur í pínulitlu íbúðina í Suðaustur-Lundúnum, í fyrsta skipti í um hálfa öld, þar sem hann bjó ásamt móður sinni, stjúpa og eldri bróður sem var sá eini sem reyndi að vernda hann fyrir grimmd og óréttlæti þessa heims. „Það var erfitt að vera heima og ég notaði því öll tækifæri til að komast burtu,“ segir Wright í grein á vef BBC. „Mér fannst ég ekki geta talað við nokkurn mann nema eldri bróður minn, Maurice. Hann var minn maður.“ Í myndinni kemur fram að Wright hafi fyrirgefið móður sinni en hún er of öldruð og veikburða í dag til að koma fram í myndinni. Stjúpinn fær enga slíka kveðju.
Líf Wrights hverfðist smemma um knattspyrnu en laugardagskvöldin, þegar hinn rómaði þáttur Match of the Day var á dagskrá sjónvarps, voru eigi að síður alla jafna þolraun fyrir hann. „Stjúpi lét mig snúa mér við og að veggnum þegar þátturinn byrjaði. Bara vegna þess að hann gat það,“ rifjar hann upp. Ef pilturinn reyndi að gægjast fékk hann aursletturnar yfir sig.
Wright segir knattspyrnuna hafa breytt lífi sínu. „Hún varð mér kompás og hjálpaði mér að finna stefnuna sem mig sárvantaði meðan ég var að vaxa úr grasi. Hún hefur líka reynst mér betri en engin við að hasla mér völl á nýjum vettvangi eftir að löngum knattspyrnuferli lauk,“ segir sjónvarpsmaðurinn.
Þegar hann var yngri var knattspyrnan fyrst og fremst skemmtun en um leið farvegur fyrir útrás. „Það vita ekki margir en ég beindi reiðinni ekki alltaf í réttan farveg. Reiðin var ekki bara viljinn til að vinna eða gremja vegna framvindu mála í leikjunum, margt af þessu var sársauki og óhamingja. Ég var alltaf á nálum. Þetta var í raun birtingarmynd áfallsins innra með mér sem tók mig mörg ár að vinna úr. Uppsafnað frá því að ég var lítill drengur. Ég grét auðveldlega ef við töpuðum leik heima á lóðinni og lenti reglulega í slagsmálum ef mér mislíkaði eitthvað sem sagt var við mig. Allt var það afleiðing af aðstæðunum heima. Ég var vansæll.“
Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.