Liðsmaður Gagnamagnsins sem greindist með kórónuveiruna í morgun er algjörlega einkennalaus, að sögn Gísla Marteins Baldurssonar, sem lýsir Eurovision-keppninni fyrir Ríkisútvarpið.
„Þetta er ógeðslega svekkjandi. Þau voru á leiðinni að vinna þetta með Think About Things í fyrra og eru núna ein af þeim sigurstranglegustu í þessari keppni og þá gerist þetta. Það eru allir búnir að fara rosalega varlega en við erum óheppin því það kemur upp smit á hótelinu sem við erum á,“ segir Gísli Marteinn, sem er í sóttkví á hótelherbergi sínu en má fara í 10 til 15 mínútna göngutúra.
„Það er grár rigningardagur í Rotterdam í dag og það er aðeins einkennandi fyrir hvernig okkur líður núna þegar við höfum fengið þessar fréttir,“ bætir hann við.
Hann segist ekki vita hvaða þýðingu það hefur að einn meðlimur Gagnamagnsins hafi greinst smitaður og veit ekki hvort upptaka frá æfingu verður notuð í undanúrslitunum annað kvöld.
Í dag átti dagskrá hópsins að vera þannig að klukkan 13 að íslenskum tíma átti að vera æfing og klukkan 19 átti að vera dómararennsli. Á morgun átti aftur að vera æfing klukkan 13 og svo keppnin sjálf annað kvöld.
Gísli segir upptökuna frá lokaæfingu hópsins vera mjög góða. „Við erum fullsæmd af því. Á meðan atriðið er í loftinu sést enginn munur á þeirri upptöku og hinu en það sést aðeins undir lokin,“ segir hann og bendir á atriði Ástrala í gær sem var tekið upp fyrir fram og enginn stóð á sviðinu í lokin þegar klappað var fyrir laginu.
„Ég veit ekki hvað gerist. Við höldum í einhverja von en við vitum ekkert hvað það þýðir,“ segir Gísli um framhaldið.