Fréttir um jákvætt Covid-smit hjá hljómsveitarmeðlim Gagnamagnsins virðast ekki hafa haft teljandi áhrif á sigurlíkur Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, ef marka má erlenda veðbanka. Sem stendur er Daða og Gagnamagninu spáð fimmta sæti í lokakeppninni á laugardaginn, en Úkraínu er nú spáð fjórða sæti eftir frammistöðu þeirra á fyrra undanúrslitakvöldinu í gær.
Ljóst er að Daði og Gagnamagnið munu ekki koma fram í beinni útsendingu hvorki í undanúrslitum annað kvöld né í lokakeppninni á laugardaginn. Draumur Daða og Gagnamagnsins að flytja lagið 10 Years á stóra sviðinu í beinni útsendingu er því úti.
Framlag Íslands verður því flutt af upptöku frá annarri æfingu Daða og Gagnamagnsins fimmtudaginn 13. maí. Samkvæmt heimildum tókst æfingin frábærlega og því ennþá tilefni til hóflegrar bjartsýni á gott gengi Gagnamagnsins okkar í Rotterdam á laugardaginn.