Upptaka Daða og Gagnamagnsins með laginu 10 Years í undanúrslitum Eurovision hlaut mjög góðar undirtektir viðstaddra í tónleikahöllinni í Rotterdam.
Atriðið gekk snurðulaust fyrir sig og ljóst að Íslendingar geta verið stoltir af frammistöðu þeirra.
„Þetta var stórkostlegt, algjörlega frábært,“ sagði Gísli Marteinn Baldursson, sem lýsir keppninni fyrir Ríkissjónvarpið, að atriðinu loknu.
Hann bætti við að Daði og Gagnamagnið hafi sýnt ótrúlegan karakter í keppninni. Þau hafi heillað alla upp úr skónum þegar þau máttu fara í höllina og eftir að kórónuveirusmitin komu upp hafi þau tekið öllu með kærleika, aldrei með biturð. Léttleikinn og húmorinn hafi ávallt verið í fyrirrúmi.