Jazzpíanistinn Sunna Gunnlaugsdóttir er Bæjarlistamaður Kópavogs 2021. Valið var tilkynnt í Salnum í dag, föstudaginn 21 maí. Karen Elísabet Halldórsdóttir formaður lista- og menningarráðs kynnti tilnefninguna að viðstöddum Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra Kópavogs. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Menningarhúsi Kópavogs.
„Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar er hreykið af þessari niðurstöðu. Sunna Gunnlaugsdóttir er frábær tónlistarkona sem á farsælan feril að baki erlendis og hér heima og hefur átt sinn þátt í að byggja upp blómlegt tónlistarlíf Kópavogsbæjar, meðal annars með tónlistarhátíðinni Jazz í Salnum. Við hlökkum til samstarfsins með henni næsta árið,“ er haft eftir Karen Elísabetu Halldórsdóttur, formanni lista- og menningarráðs Kópavogsbæjar, í tilkynningu.
Bæjarlistamaður Kópavogs skal vera tilbúinn til að vinna með Kópavogsbæ að því að efla áhuga á list og listsköpun í bænum og taka þátt í viðburðum bæjarins með það að leiðarljósi. Styrkupphæð bæjarlistamanns er 1,5 milljónir króna. Sunna Gunnlaugsdóttir tekur við keflinu af Herra Hnetusmjöri tónlistarmanni.