Tónlistarkonan Lady Gaga varð ólétt eftir mann sem nauðgaði henni. Í kjölfarið fékk hún taugaáfall. Frá þessu greinir söngkonan í nýjum þætti sem Harry Bretaprins og Oprah Winfrey framleiða fyrir Apple TV+, The Me You Can't See.
Hún var 19 ára þegar atvikið átti sér stað. Maðurinn var tónlistarframleiðandi sem hafði hótað því að brenna alla tónlistina hennar ef hún færi ekki úr fötunum fyrir hann.
Hún segir að nauðgarinn hafi svo skilið hana eftir „ólétta á götuhorni“ þar sem hún ældi. Mörgum árum seinna fékk hún taugaáfall vegna atviksins.
Lady Gaga, sem heitir réttu nafni Stefani Germanotta, hefur aldrei greint frá þessu atviki svo ítarlega áður. Hún brotnaði niður þegar hún lýsti árásinni.
„Ég var 19 ára gömul, ég vann í tónlistargeiranum og framleiðandi sagði við mig: „Farðu úr fötunum.“ Ég sagði nei og fór, og þeir sögðu mér að þeir myndu brenna alla tónlistina mína. Og þeir hættu ekki. Þeir hættu ekki að segja mér að fara úr fötunum, og ég fraus og ég ... ég man ekki,“ sagði hún.
Hún segist aldrei ætla að nafngreina gerandann opinberlega. „Ég skil #MeToo-hreyfinguna, ég skil að sumum finnist þetta mjög óþægilegt, og ég vil aldrei ... Ég vil aldrei sjá þennan mann aftur,“ sagði Gaga.