„Brandari sem gekk allt of langt“

Stefán og Daði Freyr.
Stefán og Daði Freyr. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefán Hannesson er einn fimmti af hljómsveitinni Gagnamagninu sem keppti fyrir Íslands hönd ásamt Daða Frey Péturssyni í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í gærkvöldi með glæsilegum árangri.

Daði og Gagnamagnið, að Jóhanni Sigurði Jóhannssyni undanskildum, bíða nú á sóttkvíarhóteli í Reykjavík þangað til niðurstöður liggja fyrir úr kórónuveiruskimun sem þau undirgengust á Keflavíkurflugvelli. Stefán hefur því nægan tíma til að spjalla við blaðamann, sem kemst að því að þessi 31 árs gamli íslenskukennari er óvenjulegur Eurovision-fari að mörgu leyti.

„Ég er ekkert inni í tónlistarbransanum,“ segir Stefán við blaðamann. Þannig hafi síðasta hljómsveit sem Stefán var hluti af verið pönkbandið Bygg frá Selfossi, en hann spilaði á gítar á unglingsárum sínum.

„Við spiluðum pönk því við vorum ekki betri en það á hljóðfærin okkar. En að öðru leyti lærði ég bara á gítar sem krakki, og gafst svo upp á því.“

Daði Freyr hafi í raun platað vini sína, Stefán og Jóhann, til að taka þátt í Söngvakeppninni árið 2017, þar sem lagið „Hvað með það?“ laut í lægra haldi fyrir „Paper“ með Svölu Björgvins.

„Við Jói erum bara í þessu af því að Daða fannst fyndið að setja upp eitthvert grínatriði og fara í Söngvakeppnina. Þetta var bara brandari sem gekk allt of langt.“

Fjögurra ára ferli endar með fjórða sæti

Stefán segir gærkvöldið hafa verið mikla uppskeruhátíð fyrir sig og hljómsveitina þar sem Gagnamagnsævintýrið var langt og strangt.

„Að enda fjögurra ára ferli á fjórða sæti og ljúka þessum kafla með svona góðum árangri er bara fullkomið. Maður getur ekki beðið um meira.“

Stefán Hannesson er íslenskukennari við Fjölbrautarskóla Suðurlands.
Stefán Hannesson er íslenskukennari við Fjölbrautarskóla Suðurlands. Gísli Berg/RÚV

Ekki liggur fyrir enn hve margir horfðu á úrslitakvöldið í heildina, en áhorfstölur hafa komist nálægt 200 milljónum síðustu ár. Aðspurður segir Stefán þá tilfinningu að vita að slíkur fjöldi áhorfenda sé að glápa á mann á sviðinu vera súrrealíska.

„Við vorum samt í rauninni að upplifa Eurovision eins og við höfum alltaf upplifað það; sem áhorfendur.“

Allt ferlið í kringum keppnina hafi verið tilfinningarússíbani; velgengni og vonbrigði til skiptis.

„Og það er eiginlega búið að einkenna okkar sögu.“

Alvörukeppinautar

Eurovision-keppnin var afar sterk í ár að mati Stefáns.

„Ég hef náttúrlega aldrei fylgst jafnmikið með Eurovision og núna, en mér fannst langflest lögin vera frekar góð, og ótrúlega fá léleg. Keppnin var klárlega óvenjusterk, sem gerir fjórða sætið enn þá sætara, svona fyrst um alvörukeppinauta var að ræða.“

Stefán segist ekki vera neitt sérstaklega hissa á því að Ítalir skuli hafa borið sigur úr býtum.

„Miðað við veðbankana kom það mér ekki á óvart svo sem, en mér fannst lagið ekkert spes,“ segir hann.

„Flestir í Gagnamagninu héldu með Úkraínu, við vorum mjög hrifin af því lagi.“

Naut frægðarinnar, en er feginn að fá frið

Eins og áður sagði endaði Ísland í fjórða sæti í keppninni, og halaði inn 378 stig. Af þeim voru 198 frá dómnefndum en einungis 180 úr símakosningu almennings. Þetta kom Stefáni mjög á óvart.

„Við bjuggumst við því að fá miklu, miklu fleiri stig frá almenningi en dómnefndinni. Og svo var það akkúrat öfugt,“ segir hann. „Svo var mikið talað um það á samfélagsmiðlum að við myndum fá fullt af vorkunnaratkvæðum út af Covid-smitunum. Það er greinilegt að svo var ekki.“

Þrátt fyrir það fundu íslensku fulltrúarnir vel fyrir þeirri frægð sem fylgir því að keppa í Eurovision. Stefán hefur samt ekki orðið var við hana á Íslandi enn þá.  

„Hér veit enginn hver ég er. En Eurovision-aðdáendurnir úti þekkja okkur öll með nafni.“

Frægðin sé þó ekki alltaf tekin út með sældinni.

„Ég er klárlega búinn að upplifa þessa fimmtán mínútna frægð – og naut þess í botn – en er líka mjög feginn að þessum kafla sé að ljúka svo ég geti haldið áfram að sinna mínu.“

Gagnamagnið búið í bili

Þakklæti er Stefáni efst í huga þegar litið er yfir Eurovision-ævintýrið allt saman.

„Það er algjör forréttindastaða að fá að upplifa og prófa þetta, þó að við höfum vissulega misst af Eurovision-upplifuninni.“ 

Þá útilokar Stefán ekki að Gagnamagnið láti sjá sig á Eurovision í framtíðinni. Þau myndu þó ekki mæta til að keppa aftur. 

„Við værum mjög spennt fyrir því að fá að mæta sem gestir og upplifa keppnina þannig. Það eru eiginlega einu framtíðaráform Gagnamagnsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Tafir, ruglingur og samskiptaörðugleikar í vinnunni munu setja svip sinn á þennan mánuð. En aðrir sjá ekki öll mál í sama ljósi og þá er það þolinmæðin sem gildir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Tafir, ruglingur og samskiptaörðugleikar í vinnunni munu setja svip sinn á þennan mánuð. En aðrir sjá ekki öll mál í sama ljósi og þá er það þolinmæðin sem gildir.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar