Leikkonan Mischa Barton segir að einelti sem átti sér stað bak við tjöldin í þáttunum The O.C. hafi verið ástæðan fyrir því að hún ákvað að segja skilið við þættina í þriðju seríu.
Barton fór með hlutverk Marissu Cooper. Hún segir að þeir sem hafi komið illa fram við sig hafi verið nokkrir karlar sem unnu við þættina.
„Það var fólk í tökunum sem var virkilega andstyggilegt við mig. Þetta var ekki beint uppbyggilegasta umhverfið fyrir unga viðkvæma stúlku sem var á leið upp á stjörnuhimininn,“ sagði Barton í viðtali við E Online.
Hún vildi ekki nafngreina þá sem komu illa fram við hana. Hún segir líka að sú ákvörðun framleiðandanna að gera persónu mótleikkonu hennar, Rachel Bilson, að aðalpersónunni í þáttunum hafi haft áhrif á ákvörðun sína um að hætta.
Barton segir að hún hafi átt erfitt með að takast á við frægðina sem fylgdi þáttunum. Hún var aðeins 17 ára þegar hún fékk hlutverkið.