Herra Jaja Ding dong, einnig þekktur sem leikarinn Hannes Óli Ágústsson, stóð sig vel þegar hann kynnti stig íslensku dómnefndarinnar „frá Húsavík“ í Eurovision í kvöld. Hann gerði heiðarlega tilraun til að gefa sínu eftirlætislagi, Jaja Ding dong, 12 stig, en varð á endanum að láta stigin rata sína réttu leið, eða til Sviss.
PLAY JA JA DING DONG #Eurovision #OpenUp pic.twitter.com/HLbLVZZh5Q
— Eurovision Song Contest (@Eurovision) May 22, 2021
„Halló Evrópa. Þetta er Húsavík sem hringir,“ sagði Hannes brúnaþungur er hann ávarpaði kynna kvöldsins. „Það voru mörg fín lög í keppninni í ár, en persónulega vildi ég helst biðja ykkur um að spila Jaja Ding dong,“ bætti hann við og uppskar hlátur og fagnaðarlæti. Kynnarnir báðu þó Hannes vinsamlegast um að greina frá því hvaða þjóð ætti að fá 12 stig. Ekki stóð á svari þegar Hannes fíraði sig upp í: „Stigin 12 frá okkur fær Jaja Ding dong! Spilið það!“
Kynnarnir höfðu augljóslega gaman af uppátækinu en báðu Hannes þó um að nefna hvaða lag kæmi þar næst á eftir, og þá runnu stigin 12 til Sviss.
Íslenska dómnefndin gaf Portúgal 10 stig og Búlgaríu 8 stig.