Damiano David, söngvari ítölsku sveitarinnar Måneskin sem vann Eurovision 2021 í gærkvöldi, mun fara sjálfviljugur í fíkniefnapróf eftir komuna til Ítalíu, en myndband af David beygja sig niður og hnykkja höfðinu til hliðar hefur verið til umræðu á samfélagsmiðlum. Hafa ýmsir velt því upp hvort söngvarinn hafi verið að fá sér kókaín.
David sagði í yfirlýsingu á Instagram, sem og á blaðamannafundi í gærkvöldi, að hann neytti ekki eiturlyfja.
Í yfirlýsingu frá Eurovison segir að aðstandendur keppninnar séu meðvitaðir um orðróminn. Hljómsveitin hafi sjálf þvertekið fyrir meinta kókaínneyslu og David muni fara í fíkniefnapróf við komuna til Ítalíu. Hljómsveitin hafi beðið um að fara í lyfjapróf strax í gærkvöldi en Samband evrópskra sjónvarpsstöðva hafi ekki getað komið því í kring með svo skömmum fyrirvara.
„Hljómsveitin, umboðsmenn þeirra og sendinefndin hafa upplýst okkur um að engin eiturlyf hafi verið til staðar í græna herberginu og útskýrt að glas hafi brotnað við borðið og söngvarinn hafi verið að þrífa það upp. EBU (Samband evrópskra sjónvarpsstöðva) getur staðfest að brotið glas fannst við skoðun á vettvangi. Við erum enn að skoða myndefnið vel og munum miðla frekari upplýsingum áfram þegar þar að kemur,“ segir í yfirlýsingunni.
Myndbrotið sem um ræðir má sjá hér að neðan:
Does Italy's singer realise this is being live broadcast across an entire continent? pic.twitter.com/QLw9Nnf5tT
— Calgie (@christiancalgie) May 22, 2021