Ófarir Breta í Eurovision þetta árið skrifast ekki á óánægju í kjölfar Brexit heldur lélegt lagaval. Þetta segir Elizabeth Truss, ráðherra alþjóðaviðskipta í bresku ríkisstjórninni, en hún var til viðtals á útvarpsstöðinni LBC í morgun.
James Newman hafnaði neðstur allra í keppninni með núll stig. Nokkur önnur ríki, Holland, Þýskaland og Spánn, fengu núll stig úr símakosningunni en þau lög náðu öll að krækja sér í örfá stig frá dómnefndum til að forða sér frá algerri niðurlægingu.
Nigel Farage, helsti baráttumaður fyrir útgöngu Breta, tók niðurstöðunni ekki vel og í færslu sem hann setti á Facebook í gær hvatti hann til þess að Bretar hættu einfaldlega í keppninni fyrst Evrópa kynni ekki að meta snilld Bretlands. Greinilegt væri að Evrópumenn vildu ekki kjósa Breta af afbrýðisemi og fjandskap í kjölfar útgöngu Breta úr ESB. Farage virtist reyndar ekki hafa neitt um breska lagið að segja, bara Bretland.
Truss ráðherra tekur þó í annan streng og telur ekki að óvild í garð Bretlands hafi valdið þessu. Lagið hafi bara verið lélegt. „Ég held að það sé mikið vandamál hvernig við veljum þáttakendur fyrir Eurovision,“ sagði hún. „Við þurfum á meiri samkeppni að halda til að velja lagið.“
Bretar hafa fimm sinnum unnið Eurovison, síðast árið 1997.