Damiano David, söngvari ítölsku sveitarinnar Måneskin sem vann í Eurovision 2021 á laugardag, fékk í dag neikvæða niðurstöðu úr fíkniefnaprófi. David fór sjálfviljugur í fíkniefnapróf eftir að hafa verið sakaður um að hafa tekið kókaín í beinni útsendingu.
Myndband af David beygja sig og hnykkja höfðinu til hliðar fór eins og eldur um sinu á samfélagsmiðlum. David sagði sjálfur í yfirlýsingu á laugardaginn að hann hefði aldrei neytt eiturlyfja og hann væri reiðubúinn að fara í lyfjapróf.
Í tilkynningu frá Sambandi evrópskra sjónvarpsstöðva kemur fram að málinu sé lokið og staðfest sé að fíkniefna hafi ekki verið neytt í Græna herberginu á úrslitakvöldinu.