„Þetta er helvítis hneyksli! Ég finn til með Pammy; þetta gæti endurvakið áfallastreituna. Og skammastu þín, Lily James, hver í andskotanum sem þú ert. #viðbjóðsleg.“
Þannig komst tónlistarkonan Courtney Love, sem fræg er fyrir að hafa munninn fyrir neðan nefið, að orði í vikunni. Hún var að viðra skoðanir sínar á sjónvarpsþættinum Pam & Tommy á samfélagsmiðlum en upptökur á honum eru nýhafnar í Bandaríkjunum. Pam þessi er leikkonan Pamela Anderson, góðvinkona Love, og Tommy er fyrrverandi eiginmaður hennar, með ættarnafnið Lee, sem margir þekkja sem trymbil glysmálmsveitarinnar geðþekku Mötley Crüe. Ef þið eruð ekki að kveikja á Lily James, frekar en Courtney Love, þá er það bresk leikkona sem fer einmitt með hlutverk Anderson í þættinum. Hinn rúmensk/bandaríski Sebastian Stan leikur Lee. Graig Gillespie leikstýrir.
Það er gömul saga og ný að líf og störf fræga fólksins vestra séu mönnum innblástur við gerð sjónvarpsþátta og kvikmynda. Í þessu tilviki koma hvorki Anderson né Lee á hinn bóginn nærri verkefninu og hafa fyrir vikið ekkert um það að segja hvurslag mynd verður dregin upp af þeim á skjánum. Lítið hefur lekið út um nálgunina og áherslurnar en eigi að síður hringja viðvörunarbjöllur víða. Hvorki Anderson né Lee hafa tjáð sig opinberlega en haft hefur verið eftir vini hennar í fjölmiðlum að hún ætli ekki að horfa á þennan „hræðilega þátt“. Eini tilgangurinn með honum sé að græða peninga á ógæfu annarra.
Nú er greinarhöfundur ekki spámannslega vaxinn en ætlar samt að gefa sér að sú staðreynd að Rand Gauthier sé meðal aðalpersóna í þættinum hafi eitthvað með bræði Love að gera. Það hefur komið fram og mun Seth Rogen, sem jafnframt hefur unnið að þróun þáttarins, fara með hlutverk hans.
Nú klórar þú þér ugglaust í höfðinu, kæri lesandi, og spyrð, í anda Courtney Love: „Hver í andskotanum er Rand Gauthier?“ Og lái þér hver sem vill; sjálfur þurfti ég að fletta þessu nafni upp – og er ég þó allvel að mér um strandlíf og málm.
Rand Gauthier er sumsé rafvirkinn sem stal kynlífsmyndbandinu fræga af Anderson og Lee og kom því í umferð á netinu. Fór það eins og eldur í sinu um heimsbyggðina með tilheyrandi afleiðingum og niðurlægingu fyrir dagskrárgerðarfólkið. Enda átti gjörningurinn aldrei að fara úr húsi.
Forsaga málsins er sú að Rand Gauthier lenti upp á kant við Tommy Lee sem rak hann á staðnum og harðneitaði að greiða honum fyrir verk sem hann vann á heimili þeirra hjóna. Það átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar. Hermt er að svo reiður hafi Lee verið að hann hafi meira að segja dregið upp hólk og beint honum að manninum.
Rand Gauthier átti vont með að una þessu og eftir að hafa legið yfir ítarlegri hefndaraðgerðaáætlun um mánaða skeið braust hann inn hjá hjónunum og rændi öryggisskáp, þar sem téð myndband var að finna. Mest var um saklaust myndefni frá hveitibrauðsdögum þeirra hjóna að ræða – en inn á milli var sumsé sjóðheitt kynlífsatriði. Bingó!
Eftir að myndbandið fór í umferð á netinu höfðuðu hjónin mál á hendur fyrirtækinu sem bar ábyrgðina, Internet Entertainment Group (IEG), en samkomulag náðist utan dómsalar. Eftir það fór IEG að bjóða áskrifendum upp á aðgang og þá þrefaldaðist víst traffíkin.
Nánar er fjallað um þetta hitamál í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.