Hópur aðdáenda Bobs Dylans skipuleggur nú tónlistarhátíðina Veltandi steinn sem verður haldin á Skagaströnd 14. ágúst. Dylan er áttræður í dag og kom hópur saman í tilefni dagsins.
Hermann Sæmundsson er einn þeirra sem standa að hátíðinni. Hópur Dylan-aðdáenda sem stendur að hátíðinni hittist í dag, drakk afmæliskaffi og tvær hljómsveitir sem verða með á hátíðinni tóku nokkur lög eftir Dylan.
„Þetta er fólk sem er áhugasamt um tónlist Dylans og hefur ákveðið að efna til tónlistarhátíðar þar sem eingöngu Dylan-lög verða flutt. Þetta er sólarhringshátíð og það verður líka efnt til umræðna og fyrirlesturs um Dylan og áhrif hans á poppmenninguna hér og víðar og ljóðlist og textagerð,“ segir Hermann um hátíðina.
„Síðan verða tónleikar í félagsheimilinu fram á kvöld með sérstakri kvöldvöku þar sem við erum að vinna í að fá landsþekkta listamenn til að vera með okkur. Hátíðin endar svo á sunnudeginum með Dylan-messu þar sem sóknarpestur þjónar fyrir altari.“
Hermann segir að stefnt sé að því að hafa aðgang að hátíðinni ókeypis.
„Í aðalatriðum er aðgangur ókeypis en við gætum þurft að taka eitthvað smá á kvöldvökunni til þess fyrst og fremst að hafa stjórn á aðgenginu. Það gæti orðið þátttökugjald þar, en annars erum við að safna styrkjum og stuðningi frá góðum aðilum,“ segir Hermann.
Bob Dylan er einn af afkastamestu og mikilsvirtustu tónlistarmönnum samtímans. Hann hefur meðal annars unnið Nóbelsverðlaun og 10 Grammy-verðlaun fyrir tónlist sína og framlag til tónlistar.