Heppinn kaupandi greiddi í vikunni 14.145 bandaríkjadali eða ríflega 1,7 milljónir króna fyrir sex lokka úr hári bandaríska rokktónlistarmannsins sáluga Kurts Cobains á uppboði hjá Iconic Auctions í Bandaríkjunum.
Uppboðshaldarinn segir engan vafa leika á því að lokkarnir séu í raun og sann teknir af höfði Cobains og framvísaði sönnunargögnum, þar á meðal handskrifuðum miða og ljósmynd af hárgreiðslukonunni Tessu Osbourne, með skærin á lofti að klippa téða lokka úr hári Cobains á Englandi 29. október 1989. Sú ágæta kona hefur verið framsýn því Nirvana sló ekki í gegn á heimsvísu fyrr en tveimur árum síðar, með hinni goðsagnakenndu plötu Nevermind.
Osbourne mun hafa fært listakonunni Nicole DePolo, sem elur manninn í Seattle í Bandaríkjunum, lokkana að gjöf skömmu eftir að Cobain svipti sig lífi árið 1994, aðeins 27 ára að aldri.
„Lokkarnir eru glænýir á markaðnum,“ kemur fram í yfirlýsingu Iconic Auctions. Þar segir enn fremur: „Hvað Kurt varðar þá var Tessa það sem Astrid Kirchherr hafði verið fyrir Bítlana – konan sem færði honum þessa einstöku klippingu [...] skömmu áður en ljósmyndir af honum fóru eins og eldur í sinu um heimsbyggðina.“