Leik- og söngkonan Katrín Halldóra Sigurðardóttir hefur samið við Þjóðleikhúsið og bætist nú í leikarahóp hússins. Katrín Halldóra starfaði áður í Borgarleikhúsinu þar sem hún sló í gegn sem Elly Vilhjálms í leikritinu um Elly.
Áður en Elly kallaði lék Katrín Halldóra hjá Þjóðleikhúsinu, meðal annars í hinni geysivinsælu sýningu Í hjarta Hróa hattar. Auk leiklistarnáms stundaði Katrín Halldóra söngnám, bæði hér á landi og í Danmörku.
Katrín Halldóra, líkt og aðrir listamenn Þjóðleikhússins, er þegar komin á fullt í undirbúningi fyrir næsta leikár. Á meðal verkefna hennar verða meðal annars stórt hlutverk í söngleiknum Sem á himni sem Unnur Ösp Stefánsdóttir leikstýrir en þar munu alls 25 leikarar taka þátt auk 12 manna hljómsveitar. Þá mun hún takast á við nýlegt verk eftir Caryl Churchill, Ást og upplýsingar, sem Una Þorleifsdóttir leikstýrir, í þýðingu Auðar Övu.