Mikið hefur verið rætt og ritað á samfélagsmiðlum um ásakanir á hendur tónlistarmanninum Auðuni Lútherssyni, betur þekktum sem Auði. Heitar umræður hafa skapast á Twitter þar sem Edda Falak hefur haft sig hvað mest í frammi í því að gagnrýna Auð. Í nótt klukkan rúmlega tvö steig fjölmiðlakonan Kolfinna Baldvinsdóttir fram og tjáði sig um málið og segir hún í facebookfærslu:
„Að enginn af gömlu poppurunum taki ekki upp hanskann fyrir þann unga, sem hefur nú verið tekinn af lífi án dóms og laga, segir allt sem þarf. Grunnurinn að okkar lýðræði er „saklaus uns sekt sannast“. Höldum okkur við það.“
Kolfinna er dóttir Jóns Baldvins Hannibalssonar. Jón Baldvin höfðaði meiðyrðamál gegn Aldísi Schram, sem er einnig dóttir hans, og Sigmari Guðmundssyni, fréttamanni RÚV. Í því máli báru þrjár konur vitni gegn Jóni Baldvini en þær sökuðu hann um kynferðislega áreitni. Kolfinna viðurkenndi þar fyrir dómi að hafa nálgast konurnar þrjár fyrir réttarhöldin og spurt þær „hvað gengi að þeim“.