Neytendastofa hefur birt úrskurð þess efnis að leikkonan og áhrifavaldurinn Kristín Pétursdóttir hafi brotið gegn neytendalögum er varða viðskiptahætti og markaðssetningu með duldum auglýsingum á samfélagsmiðlum með umfjöllun sinni um sjö fyrirtæki á Instagram-síðu sinni. Í úrskurðinum kemur fram að Neytendastofu hefðu borist ábendingar um umfjallanir Kristínar á samfélagsmiðlum en samkvæmt lögum ber einstaklingum og fyrirtækjum að taka fram með skýrum hætti hvort viðkomandi fái greiðslur fyrir slíkar umfjallanir. Viðskiptablaðið greinir frá þessu í dag.
„Með vísan til alls ofangreinds er það mat Neytendastofu að umfjallanir Kristínar Pétursdóttur um vörur Gallerí 17/NTC, Húrra Reykjavík, Nola, Yuzu Burger, Blómahönnunar, Reykjavík Meat og Petit hafi verið í viðskiptalegum tilgangi og endurgjald komið fyrir. Því var um auglýsingar í skilningi laga nr. 57/2005 að ræða.
Neytendastofa telur að ekki komi fram með fullnægjandi hætti að um markaðssetningu hafi verið að ræða eða að greiðsla eða annað endurgjald hafi komið fyrir í umræddum umfjöllunum og því um að ræða brot gegn 1. mgr. 6. gr. laga nr. 57/2005. Að ofangreindu virtu telur Neytendastofa að Kristín Pétursdóttir hafi með villandi viðskiptaháttum brotið gegn 2. mgr. 9. gr., sbr. 5. og 8. gr. laga nr. 57/2005,“ segir í ákvörðuninni.
Hér má lesa ákvörðun Neytendastofu.