Britney Spears hefur beðið aðdáendur sína afsökunar á því að hafa sagt að allt hafi verið í himnalagi hjá henni síðustu tvö ár þegar henni var neitað um sjálfsögð mannréttindi. Hún birti færslu á Instagram í gærkvöldi þar sem hún tjáir sig um málið.
Á Instagram segir Spears að hún hafi ekki verið stolt af því hvernig henni leið og þess vegna hafi hún ekki viljað sýna það á samfélagsmiðlum: „Í fullri alvöru, hver vill ekki að instagramsíðan sín sýni sínar bestu hliðar,“ segir Britney Spears.
„Mig langar að vekja athygli á þessu því ég vil ekki að fólk haldi að líf mitt hafi verið fullkomið því það hefur alls ekki verið það og ef þú lest eitthvað um mig í blöðunum í þessari viku þá sérðu augljóslega að það hefur ekki verið allt með felldu,“ segir Spears og biðst svo afsökunar á þessu við aðdáendur sína og segir: „Ég biðst afsökunar á því að hafa látið eins og það væri allt í lagi síðustu tvö ár.“